150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[22:02]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Kæru landsmenn. Margir héldu að með Covid-19 myndi samfélagið allt breytast. Enda upplifðum við margt þá sem áður þótti einfaldlega óhugsandi. En við höfum áður staðið í þeim sporum að hafa talið okkur hafa lært lexíu af sögunni en síðan farið hægt og rólega til baka í fyrra horf. Íhaldssemin og vanafestan eru sterk öfl. Það þarf styrk til að knýja fram breytingar og festa þær í sessi. Það á meira að segja við um þær breytingar sem þjóðin kallar eftir því að breytingarnar þýða oft að íhaldið missir völdin.

Eitt af því sem við upplifðum í vetur er hvers íslenska þjóðin er megnug. Þrátt fyrir að við séum fámenn þá erum við sterk saman. Þjóðin sýndi virðingarverða yfirvegun í erfiðum aðstæðum. Við stöndum nú frammi fyrir þeirri áskorun að milda þungt höggið sem við urðum fyrir í kjölfar Covid-19. Við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að þurfa að verja stoðir atvinnulífsins en samhliða því þarf að byggja upp fleiri. Við verðum að sýna viljann til að fjárfesta í fjölbreyttari framtíð. Veiran og baráttan gegn henni hefur haft áhrif á heilbrigði, efnahag og líðan þjóðar. Áherslan var fyrst eðlilega á heilbrigði þjóðarinnar — og þar má ekki slá slöku við. Nú er stóra verkefnið ekki síður að bregðast við alvarlegri stöðu í efnahagsmálunum. Að verja fyrirtækin og um leið fólk frá atvinnuleysi; atvinnuleysi tugþúsunda sýnir alvarleika málsins. Þriðji þátturinn er hins vegar samfélagslegur. Það skiptir miklu að ríkisstjórnin vanræki ekki að horfa á líðan þjóðarinnar í kjölfar þessa þunga efnahagsáfalls. Þetta eru stór verkefni. Og ég játa að ég hef áhyggjur.

Ríkisstjórnin er vissulega sterk talið í fjölda manna en málefnalega er hún veik og á tímum sem þessum verður svo skýrt að þessi ríkisstjórn er ekki rétta svarið. Samstaða stjórnarinnar er, þegar á reynir, lítil nema hvað það varðar að verja kyrrstöðuna, hún nær ekki saman um mikið meira. Ríkisstjórnin myndar keðju íhaldsins um samfélagið. Við sjáum pólitískar birtingarmyndir íhaldsseminnar víða. Þrátt fyrir mikinn stuðning meðal þjóðarinnar við að þjóðin sjálf fái að njóta afraksturs af sjávarauðlindum okkar mun þessi stjórn stíga fá skref í þá átt. Það verða stigin einhver skref. Það verður talað um sátt en sátt stjórnarinnar snýst um að breyta sem minnstu. Önnur birtingarmynd íhaldsseminnar er nálgunin um Ísland í samfélagi þjóða. Efnahagslegt áfall eins og þetta dregur sterkt fram að við þurfum á alþjóðlegum viðskiptum og samstarfi að halda. Við þurfum að laða hingað að alþjóðlega þekkingu, fjármagn og fólk. Augu heimsins hvíla nú á þeim þjóðum sem hafa náð góðum árangri í baráttunni við veiruna. Ísland getur í því ljósi orðið enn eftirsóknarverðara fyrir fólk sem leitar að góðu og öruggu samfélagi. Við eigum gott samfélag. En þessi ríkisstjórn vill loka á fólk af erlendum uppruna og boðar harkalega útlendingapólitík. Hún hafnar börnum á flótta sem hingað vilja koma. Hún vill helst ekki ræða samstarf Evrópuþjóða, hún vill ekki ræða gjaldmiðilinn jafnvel þó að almenningur greiði hann dýru verði. Þessir þættir krefjast þess nefnilega allir að við séum ekki hrædd við breytingar. Ríkisstjórnin hræðist meira að segja aðgerðir sem stuðla að bættri líðan þjóðarinnar; að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd eins og önnur heilbrigðisþjónusta. Þrátt fyrir víðtækan stuðning almennings mun þessi ríkisstjórn ekki auka aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu því að það krefst nefnilega vilja til breytinga.

Forseti. Pólitík þessarar ríkisstjórnar er í grunninn hugmyndafræði stöðnunar. Það er val hennar að viðhalda fábreyttu efnahagslífi, tímabinda ekki kvótann, stíga stutt skref í loftslagsmálum þrátt fyrir vikuleg mótmæli hér fyrir utan. Og það er val að halda í veikburða krónuna. Ríkisstjórnin hræðist einfaldlega breytingar. (Forseti hringir.) Verkefnin og áskoranirnar á þessum sögulegu tímum eru bæði stór og smá. Nú skiptir máli að við horfumst í augu við stöðuna og horfumst í augu við tækifærin því að þau eru hér líka. (Forseti hringir.) Og þar skiptir máli að upplifa tækifæri sem tækifæri og losa okkur undan því að hræðast breytingar og framþróun.