150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:17]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Undanfarna daga hefur Miðflokkurinn boðið upp á óralanga umfjöllun um samgönguáætlun, sem þarf reyndar að samþykkja fyrir þinghlé. Þetta voru rúmlega 30 ræður á einn þingmann, kannski vantalið. Þeir eru níu talsins þannig að þetta eru 270 ræður, kannski nær því að vera 300, og klukkutímarnir orðnir einhvers staðar milli 40 og 50. Meiri hluti ræðnanna hefur fjallað um höfuðborgarsamgöngur, sérstaklega borgarlínuna, og á meðan standa pikkföst alla vega 15–20 mál, mörg brýn og sum tímabundin.

Við ræðum hér undir sérstökum dagskrárlið frumvarp um hluta samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu og aftur borgarlínuna, sem búið er að fjalla um út í eitt af Miðflokknum dögum saman. Þau rök sem ég hef heyrt núna frá hv. þm. Birgi Þórarinssyni hef ég heyrt áður. Þannig að ég ætla að spyrja einfaldrar spurningar: Miðað við skráningu í ræður, ég held að það séu komnar tíu eða 15 bara um þetta mál, stefnir nú aftur í eina yfirgengilega talna- og tafarunu hjá Miðflokknum?