150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:21]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Ég var bara að benda á að í þessum rúmlega 300 ræðum, eða hvað það nú er, er búið að svara þessu öllu saman af hálfu Miðflokksins. Það er margbúið að segja okkur þessar skoðanir á þessum tilteknu atriðum. En þetta tafatal hefur leitt til mjög furðulegrar ræðumennsku. Við höfum heyrt hér eina ræðu, ákaflega skemmtilega, hjá hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni um hrúta og rottur sem tengjast auðvitað borgarlínunni og ég ætla að hrósa þingmanninum, hann situr ekki hér nú, fyrir skemmtilegheitin en ekki tafirnar.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Birgir Þórarinsson vitnaði í gamla blaðagrein, af því við vorum að tala um loftslagsmarkmið, þar sem verið var að ræða um olíunotkun hinna svokölluðu liðvagna sem mynda borgarlínuna og verið að ræða að hún yrði sennilega 65 lítrar á hundraðið. Nú er sýning hér handan götunnar þar sem er alveg ljóst að borgarlínan mun ganga fyrir innlendum orkugjöfum, rafmagni eða öðru, og það mun strætóflotinn gera líka. Þannig að allt tal um að þetta gagnist ekki loftslaginu er sérstakt.

En það sem mig langar að spyrja um þegar hv. þingmaður ber á borð svona tölur, 65 lítra á hundraðið, úr gamalli blaðagrein, er: Veit þingmaðurinn ekki betur? Hefur hann ekki farið yfir götuna eða er hann að villa um fyrir okkur viljandi? Ef hann kannast ekki við að hafa sagt þetta, þá bara flettu upp, hv. þingmaður, í þínum eigin ræðum.