150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég kannast ekki við að hafa minnst á 65 lítra af olíu í ræðu, hv. þingmaður. (ATG: Tilvitnun í … Tilvitnun í blaðagrein.) Er ég ekki í svari við andsvari við ræðu minni? (ATG: Tilvitnun í blaðagrein.) Það er hvergi minnst á 65 lítra af olíu. Ég geri fastlega ráð fyrir því, hv. þingmaður, eins og ég nefndi í ræðu minni, að þessi vagnar komi til með að nota rafmagn og það var það sem ég var að fara yfir. Ég minntist aldrei á neina olíu. (ATG: Í fyrri ræðu gerir …) Er ég ekki í svari við andsvari, hv. þingmaður, herra forseti, við ræðu minni? Það hefði ég haldið. Nú er hv. þingmaður farinn að snúa út úr og tefja fyrir málinu með því að koma með eitthvað sem skiptir ekki neinu máli í því sem ég var að segja.

Ég fór einfaldlega, hv. þingmaður, yfir loftslagsmálin varðandi þetta frumvarp, eins og segir í b-lið 2. gr., að stuðla að loftslagsmarkmiðum stjórnvalda. Ég get ekki séð að það sé svo stór þáttur í þessu. Það er bara þannig. Ég fór ágætlega yfir það að þessi vagnar eru t.d. örugglega verulega þungir. Það kemur til með að valda sliti á vegum og eftir 10–15 ár verða margir rafmagnsbílar, ef þeir verða ekki bara meiri hluti ökutækja á höfuðborgarsvæðinu, og nýting þeirra er mjög góð, þeir eru mjög umhverfisvænir. En er þá umhverfisvænt að aka hér þungum rafmagnsstrætisvögnum sem verða svo kannski þegar upp er staðið hálftómir? Það get ég ekki séð. Síðan er það náttúrlega öll framkvæmdin sem hefur gríðarleg umhverfisleg áhrif í útblæstri og öðru slíku. Ég verð að segja, hv. þingmaður, að þú hefur bara ekki hlustað nægilega vel á það sem ég var að segja áðan.