150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er akkúrat málið að það er auðvitað hægt að draga lærdóm af öðrum þjóðum og þannig vill til að þessi tegund samgangna er eldri en almenn notkun einkabílsins. Við höfum góða og slæma reynslu af hvoru tveggja og getum varast vítin. Við rennum því ekki alveg blint í sjóinn. Hins vegar þarf örugglega að ráðast í róttækar aðgerðir og hér er um að ræða róttæka aðgerð. Það er alveg vitað hvað þarf til að almenningssamgöngur þyki ákjósanlegar. Þar fer saman góð tíðni, skilvirkt leiðakerfi og auðvitað samanburður á kostnaði milli tveggja ólíkra möguleika. En það er margt sem bendir til þess líka að þetta skilvirka samgöngumódel sem byggir á almenningssamgöngum, og er grundvöllur hinnar evrópsku blönduðu byggðar sem hv. þingmaður og formaður Miðflokksins hefur einmitt talað um sem kost, leiði líka af sér aðra kosti. Það gerir byggðina t.d. gönguhæfari, hjólahæfari og eflir í leiðinni aðra vistvæna samgöngumáta, sem umferðarmódel sem byggir nánast eingöngu á forsendum einkabílsins gerir ekki. Það er ekki þannig að við rennum blint í sjóinn. Það þarf ekkert að horfa annað en bara vestur um haf og sjá í hvaða ógöngur samfélögin þar hafa komist vegna uppbyggingar sem byggist á amerísku bílaborginni, um flokkun og aðgreiningu, og í það get ég farið á eftir í ræðu minni. Við erum ekki að renna blint í sjóinn.