150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Án þess að ég ætli að halda áfram í andsvörunum þá get ég upplýst hv. þingmann um það að ég hef alveg kynnt mér sjónarmið skipulagsfræðingsins Trausta Valssonar. Þannig vill til að skipulagsmál hafa verið í 30 eða 40 ár ein af mínum helstu áhugaefnum fyrir utan það að ég hef unnið við það. Ég hef því kynnt mér sjónarmið hans og svo margra annarra og svo dregur maður einhverjar ályktanir af því og auðvitað reynslunni. Það fær mig hins vegar til að komast að þeirri niðurstöðu að hér er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða sem er nauðsynlegt að við klárum á þessu þingi.

Í frumvarpinu er tilgangi verkefnisins lýst ágætlega:

„a. Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.

b. Að stuðla að því að loftslagsmarkmiðum stjórnvalda um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag verði náð.

c. Að stuðla að auknu umferðaröryggi.

d. Að tryggja skilvirkt samstarf milli ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um trausta umgjörð á uppbyggingu innviða.“

Við þetta mætti svo einnig bæta að þarna erum við líka að stuðla að auknum lífsgæðum borgarbúa. Við erum að stuðla að meiri framleiðni sem næst fram með því að samgöngur í strætó og með bílum, hjólum og gangandi verða greiðari þannig að fólk getur einfaldlega komið meiru í verk yfir daginn. En loks má ekki gleyma þeim þætti sem mér finnst gleymast allt of oft þegar rætt er um almenningssamgöngur og er í rauninni lykillinn í umræðum kringum almenningssamgöngur löngu áður en að manninum varð það ljóst að hægt væri að ná ákjósanlegum loftslagsmarkmiðum með þeim. Það er hinn félagslegi og efnahagslegi þáttur sem lýtur að almenningi. Almenningssamgöngur, sporvagnar, neðanjarðarlestir og strætó hafa nefnilega verið grundvöllurinn að mest og best heppnuðu borgum sem við þekkjum og þar hefur ekki bara loftslagsþátturinn verið sá sem hefur verið mest áberandi í umræðunni.

Möguleikarnir til að ferðast um án þess að þurfa að reka bíl hafa bara gríðarlega mikilvæga efnahagslega og félagslega kosti fyrir fólk og heimili, ekki síst þau efnaminni. Ég efast reyndar um að ríki eða sveitarfélögum sé mögulegt að koma meiri, skilvirkari, hagkvæmari og ódýrari stuðningi til þessara heimila en með því að gefa þeim valkost um að spara rekstur eins eða jafnvel tveggja bíla. Til þess þurfa almenningssamgöngur vissulega að vera góðar. Og það mun taka tíma. En þetta hlýtur að vera markmið okkar vegna þess að þetta er nákvæmlega sú leið sem allar aðrar borgir eru að feta, jafnvel þær borgir sem hafa sögulega byggt á þessum samgöngumáta. Nærtækast er að nefna Kaupmannahöfn, Gautaborg, Stokkhólm og Ósló. Þar er gengið enn lengra í þessa átt og varla er það vegna þess að þær hafi talið að þær hafi verið að renna blint í sjóinn og farið eftir einhverju óheppilegu einstigi.

Það eru einhverjir sem munu kjósa að keyra bíl áfram. Ég held að það sé nauðsynlegur valkostur í okkar stóra og dreifbýla landi. Ég hef engar athugasemdir við það. Ég styð hins vegar að við ýtum fólki frekar út í að nota vistvænni bifreiðar sem keyra um á grænni orku. En það er margt annað við bílinn en orkugjafinn sem gerir hann ekki ákjósanlegan sem fyrsta val fyrir fólk í borgarsamfélagi. Plássið sem hann tekur er gríðarlega verðmætt. Bílar í borgum eru yfirleitt á ferðinni 10–15% af sínum tíma en 70–80% tímans eru þeir geymdir á bílastæðum. Á venjulegum hópbílastæðum tekur hver bíll 25 fermetra af landi meðan á bílastæðum samsíða götu eru það 12 fermetrar. Það er svona ívið skárra, en þetta er hins vegar gríðarlega mikið.

Ég hef oft fjallað um þann eiginleika bílsins, sem einhverjir hafa hrist hausinn yfir og sem fjallað hefur verið miklu meira um í skipulagsumræðunni, sem er hreyfanleiki hans sem gerir okkur í rauninni svo frjáls, gerir okkur kleift að búa hvar sem er og vinna hvar sem er og sækja afþreyingu hvar sem er. Þá er ekki mikil ögun í því að þétta borgirnar og gera þær hagkvæmari. En lykilatriðið, sem við þurfum að fara að lifa eftir í borgum, er einfaldlega að búa minna, búa nær hvert öðru og neyta minna. Ég held hins vegar að uppbygging borgarlínunnar geti verið gagnleg þeim sem þó kjósa að vera á bíl eða verða að vera það. Ég ætla ekki að gera lítið úr því, það er fullt af fólki sem mun þurfa að nota einkabílinn áfram og það er af mörgum ástæðum, fyrir utan það að það er alveg frjálst val. En borgarlína getur verið þeim hagkvæm líka vegna þess að miðað við umferðarspár til 2050, með óbreyttu kerfi, stefnir náttúrlega bara í algerar ógöngur. Mislæg gatnamót og fjölgun akreina sýnir sig í borgunum vestan hafs og auðvitað líka í síðmódernískum borgum í Evrópu að það virkar ekki vegna þess að alltaf er komið að einhverjum flöskuhálsi þar sem allt er stopp. Ég held því að þessi leið geti bara verið býsna gagnleg fyrir einkabílaeigendur líka, þannig að hagsmunir þessara hópa — ef vel verður að verkefninu staðið, auðvitað skiptir það öllu máli, ég tek undir með hv. þingmanni um að það skiptir máli að þetta sé vel gert og þetta sé fyrirsjáanlegt — fari saman. Þess vegna er mjög brýnt og aðkallandi, eins og ég sagði áðan, að vinda sér í þetta.

Herra forseti. Það er í fyrsta lagi nokkuð sögulegt að sveitarfélögin hér sem lúta býsna ólíkri stjórn, þ.e. með tilliti til flokka, hafa náð að sameinast um jafn metnaðarfulla og skýra framtíðarsýn eins og hér er um að ræða, þannig að tækifærið núna er býsna merkilegt og ekki víst að það gefist endilega hvenær sem er. Það fer svo saman við atriði sem kemur ágætlega fram í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Núverandi efnahagsástand, með hratt minnkandi eftirspurn og efnahagsslaka, lítilli fjárfestingu og langvarandi fjárfestingarhalla, kallar jafnframt á að ráðist verði í fjárfestingar á vegum hins opinbera. Áhrif opinberrar fjárfestingar á eftirspurn í hagkerfinu geta því verið nokkur við þessar aðstæður án þess að ýta undir verðbólgu eða leiða til hærra vaxtastigs. Við blasir að afleiðingar samdráttarins geta orðið alvarlegar og er sérstök hætta á því að atvinnuleysi aukist verulega.

Almennt getur ríkissjóður aukið fjárfestingar sínar til að ná tveimur efnahagslegum markmiðum. Annar vegar til að styðja við eftirspurn með áherslu á framkvæmdir þar sem innlendir framleiðsluþættir eru nýttir. Hins vegar til að stuðla að aukinni framleiðni með áherslu á efnahagslega arðbær verkefni.

Við þessar aðstæður er mikilvægt að viðhalda fjárfestingarstigi hins opinbera og stuðla að því að flýta framkvæmdum.“

Nú er ég ekki að halda því fram að þetta sé eitthvað sem okkur greinir á um. Ég hef vissulega orðið var við það að Miðflokkurinn ætlar ekkert að liggja á liði sínu þegar kemur að því að nýta þennan fjárfestingarslaka og ráðast í fjárfestingar, svo að ég hafi það nú á hreinu, og þingflokkurinn hefur ásamt okkur m.a. lagt fram breytingartillögur við fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem ganga lengra en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir. En okkur greinir á um leiðir og um það er ekkert að segja. Við nálgumst kannski eftir því sem við tölum meira sama, kannski fjarlægjumst við hver annan og það er þá bara þannig. Ég hef ekkert á móti því að um þetta fari fram efnisleg, vönduð og góð umræða sem öll sjónarmið eiga skilið að hlustað verði á. En mér finnst skipta máli að við einbeitum okkur að þessu verkefni líka út frá loftslagsmálum.

Stóra verkefni okkar Íslendinga á næstu árum verður einfaldlega að vinda ofan af gegndarlausri ofbeit mannsins á jörðinni, lengstan part vissulega án þess að við gerðum okkur grein fyrir því hvað við værum að gera. En skuldin sem við höfum safnað upp, sem mun þurfa að greiðast af börnum og barnabörnum okkar, er orðin svo mikil að við verðum einfaldlega að taka nokkuð róttækar ákvarðanir.

Ég held að sú skynsamlega og skilvirka uppbygging samgöngumannvirkja sem hér er boðið upp á, sem er blanda af almenningssamgöngum, greiðfærari stofnleiðum, hjólreiða- og göngustígum, muni geta leikið stórt hlutverk í því. Það þarf í rauninni að leggja áherslu á greiðar samgöngur og góðar almenningssamgöngur um allt land. Við búum í þannig landi að á höfuðborgarsvæðinu búa 70% þjóðarinnar og þess vegna ákváðum við í byrjun 20. aldarinnar að skipuleggja okkur þannig að meginhluti af allri þjónustu væri hér. En það hlýtur þó að hafa þýtt það að þeir sem kjósa, verða eða vilja búa annars staðar á landinu eigi greiðan aðgang að höfuðborginni. Ég held því að uppbygging borgarlínunnar, ásamt hinum aðgerðunum sem á að ráðast í, sé forsendan fyrir farsælli byggðaþróun á höfuðborgarsvæðinu til lengri tíma og spari svona stórkarlalegri samgöngumannvirki sem kosta gríðarlega fjármuni líka, við skulum ekki gleyma því. En að mínu áliti og eftir því sem ég hef skoðað og lesið hafa slík mannvirki ekki skilað þeim niðurstöðum sem þau áttu að gera. Það er í rauninni svo slæmt ástand í verstu bílaborgum Ameríku, þar sem fátækara fólk og efnaminna þrýstist sífellt lengra og lengra út í úthverfi og getur það vegna þess að einkabíllinn gerir þeim það kleift, að borgarumhverfi verður svo gisið að ekki er hægt að mæta þessu með almenningssamgöngum vegna þess að þær geta ekki orðið nógu skilvirkar. Leiðakerfið verður of flókið. Mjög víða er það orðið þannig að húsnæðiskostnaður þessa fólks er kominn í annað sæti yfir útgjöld heimilisins á eftir bílnum. Svo kemur maturinn. Þetta hefur orðið til þess að stærstu og róttækustu kenningar, framkvæmdir og áætlanir sem við þekkjum núna í skipulagsmálum eiga sér stað í Bandaríkjunum, ekki Evrópu.

Það eru ótal dæmi um það og hægt er að sýna fram á það að virkar, góðar og skilvirkar almenningssamgöngur tryggja þéttari byggð og þær styðja líka blandaða byggð, sem er eitthvað sem við teljum vera ákjósanlegt, þ.e. þessa evrópsku borg.

Árið 2008 var fyrsta árið í sögu mannkyns þar sem jafn margir bjuggu í borg og dreifbýli og er gert ráð fyrir að 70% allra jarðarbúa muni búa í borg árið 2050. Við hér erum löngu komin þangað. En borgarmyndun okkar hefst svo seint af einhverri alvöru að við höfum eiginlega bara byggt upp á grunni hinnar amerísku bílaborgar þar sem flokkun og aðgreining er leiðin en ekki blönduð byggð. Við eigum kannski ekkert mikið af evrópsku borgarumhverfi nema kannski hérna rétt í kringum Hótel Borg og Reykjavíkurapótek. En við getum snúið til baka. Þetta gengur einfaldlega ekki. Loftslagsmálin verða eitt meginviðfangsefni okkar næstu áratugina. Við höfum ekkert um annað að velja. Við erum búin að taka markviss skref í átt að orkuskiptum en við verðum líka að ganga lengra en það.

Borgirnar eru, eins og ég nefndi áðan, komnar til að vera. Þær eru býsna merkileg uppfinning og eru á margan hátt drifkraftur, bæði efnahagslegs vaxtar og auðvitað andlegrar deiglu líka þar sem maður mætir manni og kona konu og kona manni og manni og konu. Þar gerast hlutirnir einfaldlega þannig að við skulum við ekki gera lítið úr þeirri merkilegu uppfinningu sem borgin er. Öflug borg getur haft mjög góð áhrif langt út fyrir borgarmörkin og líka út í dreifbýlið. Ég held því að það séu ekki bara hagsmunir höfuðborgarbúa að þetta verði svona, ég held að þetta séu hagsmunir alls landsins. Það er einfaldlega þannig að sterk landsbyggð þarf á sterkri höfuðborg að halda, en sterk höfuðborg þarf vissulega á sterkri landsbyggð að halda líka. Við gleymum því kannski dálítið oft.

En sem sagt: Við þurfum að þétta byggð. Við þurfum að byggja minna og við þurfum að búa nær hvert öðru og við þurfum að gera fólki kleift að ferðast á milli án þess að nýta ofsadýrar, óþarfa stórkarlalegar samgönguæðar fyrir einkabílinn, þótt vissulega verði það alltaf hluti af okkur inn í lengri framtíð þótt ég efist stundum um það að fólk velti því mikið fyrir sér hvað bíllinn er í rauninni svona tímabundinn hlutur af lífi mannsins. Þetta er ekki nema um 100 og eitthvað ára gömul uppfinning og í rauninni miklu síðar sem bíllinn verður almenningseign. Það eru kannski ekki nema 70 eða 80 ár. Við gerum hins vegar ráð fyrir að það verði óbreytt um aldur og ævi og ég held að það sé mjög óráðlegt. Ég held að bíllinn muni eiginlega keyra sig út sjálfur á þann hátt sem við höfum verið að nota hann; til þess að skutlast út í búð, til að fara í bíó og annað slíkt. Hann er nauðsynlegur í landi eins og við búum. Hann er nauðsynlegur fyrir sumt fólk sem getur ekki nýtt sér annað, en sem almenn neysluvara frá degi til dags þar sem við förum til vinnu eða út í búð eða á íþróttakappleiki, þar mun hann örugglega bara heyra sögunni til.

Mér finnst margt mæla í þá átt að við þorum að ráðast í þessa róttæku og djörfu hugmynd af því að aðstæðurnar eru til staðar. Við erum með samkomulag milli þessara mörgu stóru sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og svo framsýni samgönguráðherra og ríkisstjórnarinnar hins vegar og síðan erum við með þennan efnahagslega slaka sem er ákjósanlegur til að ráðast í svona mikla uppbyggingu.

Ég get hins vegar að lokum tekið undir með hv. þm. Birgi Þórarinssyni sem talaði hérna á undan, að vissulega þurfum við að svara ýmsum spurningum og við þurfum örugglega að leggja meiri metnað í það að ráðast í aðgerðir sem fjölgar farþegum sem kjósa að nota þessa leið. En ég held að þegar öllu er á botninn hvolft, þegar við horfumst í augu við þann vanda sem blasir við okkur vegna ofbeitar okkar á jörðinni, þegar við horfum síðan til baka og sjáum hvernig borgarþróun hefur verið í þeim borgum sem hafa byggt á almenningssamgöngum í 150 ár og hinum sem hafa byggst á forsendum einkabílsins, liggi svarið nokkuð ljóst fyrir. Við erum að fara rétta leið. Við skulum þá frekar, í staðinn fyrir að takast á um þær ólíku leiðir sem ætti að fara, virða það að mikill meiri hluti þings vill fara þessa leið. Og ég fagna því ef þingmenn Miðflokksins koma svo með okkur í það að reyna að styrkja grunninn undir þá leið sem við ætlum að fara af því að þar má örugglega gera margt enn betur.