150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Ræðan bar þess merki að þingmaðurinn hefur reynslu úr heimi skipulagsmála og arkitektúrs og er það mjög gott. Það er alltaf gaman að hlusta á fólk sem getur miðlað af reynslu sinni og þekkingu. Þingmaðurinn gerir það svo sannarlega. Ég held að ég geti tekið undir með þingmanninum með það að almenningssamgöngur eru gríðarlega mikilvægar og þær verða mikilvægari. Útfærslan á þeim er hins vegar eitthvað sem við getum alltaf rætt. Það sem ég hef mestar áhyggjur af við þessa umræðu er m.a. kostnaðurinn við verkefnið, sem mér finnst ekki nógu ljós, ábyrgðin á verkefninu, hvernig farið verður með ákveðna hluti ef farið verður fram úr o.s.frv. Það er í sjálfu sér sveitarfélaganna að leita samninga við ríkið um gerð þessarar borgarlínu og allt það. Ég sakna þess hins vegar dálítið, og kem kannski inn á það í ræðu minni á eftir, að sjá ekki hugmyndir um hvernig strætó, rafbílar eða umhverfisvænni bílar gætu nýtt t.d. sömu akreinar með einhverjum hætti og við byggt upp það kerfi sem við eigum í dag. En mig langar að spyrja þingmanninn út í eitt. Í frumvarpinu um hlutafélagið er gert ráð fyrir að 60 milljarðar af þessum 105 eða 110 milljörðum sem ríkið á í sjálfu sér að ábyrgjast eigi að koma með flýtigjöldum eða tafagjöldum eða hvað við köllum þetta. Mig langar spyrja þingmanninn hvort við séum ekki í rauninni, með því að samþykkja þetta, eins og þetta er lagt upp hér, að samþykkja að taka upp flýtigjöld í samgöngumálum á Íslandi, að taka upp veggjöld og láta notendur borga? Við höfum verið á svipaðri línu þegar kemur að þessu svokallaða samvinnuverkefni, þ.e. að það þurfi að útskýra betur hvað í felist í flýtigjöldum.