150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Með þessum 60 milljörðum er sá fyrirvari reyndar gerður að komi meira út úr lóðasölu geti sá kostnaður lækkað, en vissulega er gert ráð fyrir umtalsverðri fjármögnun með einhvers konar gjaldtöku. Ég er þeirrar skoðunar að við alla gjaldtöku þurfi sérstaklega að velta því fyrir sér á hverjum hún bitnar. Við getum ekki sætt okkur við það að leiðir eins og götur séu skattlagðar þannig að það leggist þyngst á efnaminna fólk sem kannski, vegna borganna sem byggst hafa upp, hafa flust út í úthverfin. Ég mun ekki verða talsmaður hvaða útfærslu sem er þegar kemur að gjaldtöku. En með nútímatækni, með GPS-tækni og öðrum rauntímaupplýsingum, geta flýtigjöld verið býsna áhrifarík leið, líka til að ná fram orkusparnaði. Það getur líka hjálpað fólki að komast greiðar á milli staða. Ég útiloka það ekki að slík gjaldtaka geti verið mjög pósitíf ef hún lendir ekki með þyngri hætti á viðkvæmari hópum en öðrum og það er bara útfærsla. Þá getur verið að þetta sé forgangurinn inn í þá framtíð sem við erum að keyra inn í þegar olíu- og bensíngjaldið hverfur. Ég get hins vegar gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki tekið umræðu um þann mikilvæga þátt sem lýtur að gjaldtöku fyrr þannig að það sé orðið skýrt áður en við fáum í fangið öll þessi frumvörp þar sem fjallað er um gjaldtöku bæði hér í borginni og út um allt land.