150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég væri ekki búinn að halda ræður þar sem ég hef örugglega fjórum eða fimm sinnum sagt að við þurfum að ráðast í þetta verkefni ef ég teldi ekki að nauðsynlegt væri að gera það. Sparnaður af verkefninu mun nefnilega verða margfaldur á við það að vera með óbreytt kerfi. Okkur Íslendingum hættir til að hugsa ekki nógu langt fram í tímann þegar við kostnaðarreiknum. Ef við horfum t.d. á hvernig við kostnaðarreiknum mannvirki þá erum við með lóðaverð, hönnun og byggingu og hættum svo. Mjög margar þjóðir eru með lóðarverð, hönnun, byggingu, rekstur í 50 ár og niðurrif. Það gefur réttari tölu. Það sem ég á við með þessu er að búið er að sýna fram á það í skýrslum að afleiddur sparnaður vegna verkefnisins er svo gríðarlegur að ég held að þetta verði áhættuminni aðgerð en margar aðrar.

Svo kem ég að fyrri spurningunni er varðar hvað Reykjavík og hinar norrænu borgirnar eiga sameiginlegt. Því miður of lítið enn þá. Með þessu verkefni getum við nálgast þær aðeins að uppbyggingu og gert Reykjavíkurborg þéttari og að meiri borg og nágrannasveitarfélögin þéttara tengd. Ég held að við getum í rauninni auðveldlega nálgast það. Vissulega er Reykjavík minni borg en þessar borgir voru minni einu sinni. Það eru ekki margir áratugir síðan Ósló var enn þá minni. Ég þekki ekki dæmið frá Álaborg en mér finnst einu gilda með hvaða hætti menn taka ákvörðun um að vera með almenningssamgöngurnar, hvort það er strætó, sporvagn eða lest. Ef þeir hafa haft góð rök fyrir því að fara þá leið sem þeir fara hafa þeir a.m.k. viljað veðja á almenningssamgöngur.