150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að tala um að bílarnir sjálfir væru svo stórkarlalegir og ég ítrekaði það tvisvar í ræðunni að margir þurfa á bílum að halda, ekki síst nú á meðan almenningssamgöngur eru ekki betri en þær eru. Það getur verið barnafólk, eldra fólk, fólk með fötlun og auðvitað þurfum við að gera ráð fyrir því. Ég er að tala um þær afleiddu framkvæmdir sem fara þarf í ef núverandi leið okkar, að hafa einkabílinn sem fyrsta samgöngukost, verður ofan á og þá horfi ég bara á íbúaþróun til 2050 á höfuðborgarsvæðinu.

Ég held að það sé hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að þær samfélagsbreytingar og tæknibreytingar sem við erum að ganga í gegnum geti einmitt leikið lykilhlutverk, m.a. til þess að draga úr bílanotkun, ráðast gegn loftslagsvandanum, auka framleiðni og gera ýmislegt dásamlegt ef við höldum rétt á spilunum. Ég er ekki sérfræðingur í sjálfkeyrandi bílum en ég held þó að Ísland muni aldrei leiða þá þróun, þrátt fyrir að vera lítið land sem er fljótt að tileinka sér tækninýjungar og margir hafi spáð að landið muni leiða hana. Fyrir því eru mörg rök. Í fyrsta lagi er gatnakerfið okkar ekki tilbúið og ekki fært um að taka við slíkri umferð. Í öðru lagi búum við við rysjótta veðráttu og jafnvel þótt bíllinn geti keyrt sjálfur mun hann örugglega ekki geta mokað sig upp úr skafli og ýtt sér sjálfur. Það er ýmislegt sem gerir það að verkum að við munum þurfa að bíða og sjá hver þróunin verður þar sem skilyrði eru einfaldlega hagkvæmari.