150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Talandi um þessar samfélagsbreytingar þá höfum við séð það svo áþreifanlega í veirufaraldrinum að mikill meiri hluti fólks hefur áhuga á því að vinna heima. Ástandið sem hefur skapast vegna veirufaraldursins hefur verið ákveðinn prófsteinn á það fyrirkomulag. Það hefur gengið ótrúlega vel og við sjáum t.d. hér að margir starfsmenn þingsins hafa unnið heima og sinnt starfi sínu mjög vel og verið í góðu sambandi við þingmenn. Hér er gríðarleg samfélagsbreyting á ferð og mun verða á næstu árum. Við erum að tala um verkefni sem er til framtíðar sem mun gera að verkum að það verða ekki nærri því eins margir á ferð í umferðinni og ætla mætti. Það eru því ýmsir þættir sem þarf að koma inn á í þessari umræðu og skoða nánar.

Að sjálfsögðu hefði ég viljað spyrja hv. þingmann nánar út í þetta en tíminn er liðinn.