150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:13]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, samfélagsbreytingarnar eru algerlega klárar og um það erum við sammála. En þær eru líka þannig að margt bendir til þess að unga fólkið kjósi einmitt annars konar lífsstíl en við sem eldri erum og þótt minni umferð verði milli vinnu og heimilis þá muni unga fólkið í auknum mæli frekar kjósa þennan samgöngumáta. Það er meira að segja orðið þannig að í Bandaríkjunum, sjálfu Mekka bílaiðnaðarins, eins og var alla vega, hefur allt í einu ungu fólki sem kýs að taka bílpróf fækkað. Það þekkjum við hérna líka. Sumir hafa haldið því fram að framleiðendur sjónvarpsþáttanna Friends og Sex and City og slíkra lífsstílsþátta hafi gert meira gagn fyrir borgirnar og skipulagsumræðuna en við allir sem höfum síðustu öld unnið að skipulagi og arkitektúr.