150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[15:44]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Í ræðu minni áðan vitnaði ég í umsagnir en mér láðist að nefna atriði í umsögn frá Ríkisendurskoðun, skilaboð sem mér finnast mjög áríðandi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur ekki efni til þess að embættið velti fyrir sér meginefni frumvarpsins um heimild til þess að stofna til opinbers hlutafélags um þær framkvæmdir sem eru í undirbúningi. Rétt þykir þó að benda á mikilvægi þess að áætlanagerð áður en kemur að framkvæmdum sé bæði ítarleg og gagnsæ. Eins og nú háttar til virðist margt í svokallaðri borgarlínu vera óljóst. Er því athugasemd þessi sett fram til að árétta mikilvægi vandaðrar áætlunargerðar.“

Í lok umsagnarinnar er hnykkt á því hve mikilvægt það sé, enda náttúrlega algerlega augljóst, að vönduð áætlanagerð sé til þegar farið er út í svona viðamiklar framkvæmdir og að það sé eins fyrirséð og hægt er hvernig málin eigi að þróast. Mann rekur í rogastans að þetta komi frá Ríkisendurskoðun og sé sett inn í þetta mál. Umsögnin kemur inn á þing 27. maí og ekkert hefur skeð síðan þá. Eins og ég sagði áðan, og fleiri hafa sagt, þarf náttúrlega miklu meiri tíma til að vinna slíka áætlanagerð. Þessu er bara hent þarna inn til að landa þessu samkomulagi. Það er gríðarlegt ábyrgðarleysi að fara þessa leið á þennan hátt.

Mig langar aðeins að nefna þann þátt sem hefur verið mikið til umræðu, þ.e. nýtingu strætisvagna og almenningssamgangna. Það er ljóst að stefna borgaryfirvalda hefur verið að þrengja að einkabílnum, hægja á umferð og reyna að beina fólki upp í strætisvagna. Oft er það nú fólk sem notar jafnvel ekkert strætisvagna sjálft sem talar mest um það. En það er náttúrlega önnur saga.

Veðurfar á Íslandi er þannig að oft er erfitt að ferðast á milli svæða. Það er bara þægilegra að setjast upp í bíl og keyra á áfangastað en að þurfa að labba út á stoppistöð og bíða eftir strætó, bíða svo eftir næsta strætó og ætla að komast þannig á milli staða, þó að það sé vel hægt. Þegar unnið er gegn því að fólk noti einkabílinn, eða í raun verið að tala einkabílinn niður, fyllist ég ónotum vegna þess að fólk á að hafa val. Það hefur meira að segja verið talað um að einkabíllinn eigi sér svo stutta sögu í sögulegu samhengi og að hann sé uppfinning sem fari að líða undir lok og að við förum að nýta okkur aðrar leiðir. Það getur vel verið. Nú eru komnir sjálfkeyrandi bílar þó að ekki séu þeir komnir til Íslands. Þeir eru þó til, eru í þróun og komnir í gagnið á einhverjum stöðum. Þeir þurfa pláss.

Framtíðin er því ekki sú að allir geti farið í strætó. Borgarlínan, eins og ég skil hana, verður líka þannig að hún er bara á stofnbrautum. Þeir sem koma úr úthverfum þurfa þá að taka strætó þaðan til að fara á stoppistöð til að bíða eftir vagni sem er að fara að borgarlínunni o.s.frv. Ég sé ekki fyrir mér að þetta komi til með að minnka áhuga fólks á að nota einkabílinn, nema síður sé.

Ég var búinn að skrifa hjá mér punkta sem ég ætlaði að ræða en gleymdi þeim reyndar á borðinu mínu. Ég geri það í næstu ræðu sem ég hef áhuga á að flytja hér seinna. En svo að ég árétti það sem ég nefndi í síðustu ræðu fer þetta borgarlínumál algerlega ófullburða inn í það verkefni að stofna þetta félag. Forsendur þess að samningar náðust voru að hafa borgarlínu þar inni. Við erum að tala um áætlaða 50 milljarða í kostnað, óútfærða áætlanagerð og flestir sem hafa gagnrýnt málið tala um að þessir 50 milljarðar séu miklu lægri tala en kostnaðurinn komi til með að verða. Ég sagði einmitt í lok ræðu minnar áðan að menn hefðu talað um að hann gæti margfaldast með pí, sem sagt 50 sinnum 3,14 o.s.frv. Þá erum við að tala um 200 milljarða á tímum þegar fé flæðir út úr ríkissjóði. Sveitarfélög eru mjög illa stödd, Reykjavíkurborg er mjög illa stödd fjárhagslega, ástandið í þjóðfélaginu er erfitt út af kostnaði vegna Covid-faraldursins sem skiptir hundruðum milljarða og erfitt að sjá hvernig eigi að landa þessu. Fyrirbærið verður síðan alveg örugglega rekið með halla þegar reksturinn verður kominn í fang sveitarfélaganna. Þannig að þetta gengur ekki upp, það er nú bara alveg skýrt í mínum huga.

Eins ánægður og ég er með samkomulag þessara sveitarfélaga um stofnvegi á svæðinu, að farið sé í stórt átak, er þessi hluti algerlega út úr kú. Menn mega ekki vera komnir svo mikið með bakið upp að vegg, sérstaklega í svona stórum ákvörðunum, að þeir samþykki eitthvað inn í málið sem raunverulega eyðileggur það. Það er óforsvaranlegt. Það verður að vera miklu meiri tími. Úr því að framkvæmdin hefur verið stopp síðan 2011 getur nú varla riðið baggamuninn, ef þetta blessaða borgarlínuverkefni á að vera áfram á borðinu, að meiri tími sé notaður til að ígrunda það og útfæra mun betur. — Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.