150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég hef undanfarið rætt nokkuð mikið um lagningu borgarlínunnar, hvernig hún hefur áhrif á umhverfið o.s.frv., en ég ætla að fara dálítið aðra leið núna vegna þess að í þetta sinn ætla ég að fara fram á það við hæstv. forseta að hann taki þetta mál af dagskrá þingsins og ég ætla að útskýra hvers vegna.

Í gærkvöldi mætti á fund fjárlaganefndar sérfræðingur sem heitir Einar S. Hálfdánarson. Hann lagði fram góð rök fyrir því að þessi lagasetning sem við erum núna að vinna að, og við Miðflokksmenn höfum varað við, standist ekki lög um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001. Þar á meðal, herra forseti, um að það eigi að byrja á því að gera frumathugun. Þessi sérfræðingur segir: Það er verið að byrja á öfugum enda. Það er verið að stofna félag án þess að frumathugun fari fram. Það er verið að stofna félag án þess að mismunandi kostir séu greindir og bornir saman því að alltaf á að velja arðsömustu leið. Það á að gera frumathugun um m.a. áhrifin á loftslagsmál og um framkvæmdina sem slíka. En það verða að liggja fyrir áætlanir og í stuttu máli lagði þessi ágæti sérfræðingur til að málinu yrði frestað og það yrði farið í þessa lögbundnu frumathugun samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001.

Aðili sem hér er að skuldbinda sig til að leggja fram 120 milljarða kr. verður náttúrlega að gera fulla frumathugun. Tekjumódelið og kostnaðargreiningin verður að liggja fyrir. Það er krafa samkvæmt þessum sömu lögum og ríkið þarf að gera þessa frumathugun sjálft, ekki borgin, vegna þess að sá sem borgar þarf að gera frumathugun. Ég verð að segja, herra forseti, að þetta er ekki í fyrsta skipti sem nýjar upplýsingar koma fram í málum sem við Miðflokksmenn ræðum af gaumgæfni og á þetta t.d. við um mál sem við ræddum nokkuð í fyrra. Þar komu fram fullt af nýjum upplýsingum og sumar eru að hlutgerast og holdgerast í dag. En það er með hreinum ólíkindum, herra forseti, að þetta mál skuli vera komið svona langt, svona öfugt búið.

Mig langar líka geta eins, herra forseti, og þetta geri ég ekki á hverjum degi. Mig langar að vitna í nýlega grein hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar, sem birtist 11. júní síðastliðinn í Morgunblaðinu og heitir „Vitlaust Alþingi“. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það sem þingið gerir aðallega er að setja lög, og gerir það illa. Það er ekki hægt að segja að þingið sé skilvirkt vegna þess að sömu málin eru óafgreidd þing eftir þing. Það er ekki hægt að segja að þingið sé vandvirkt af því að reglulega er málum troðið í gegn með tilheyrandi fjárhagslegum og réttindalegum skaða.“

Þetta segir hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, og hann er fulltrúi flokks sem telur sig til þess hóps manna sem vilja mest gegnsæi, mesta vandvirkni, í stuttu máli sagt, að þessi flokkur sé eins og nýfallin mjöll.

En núna allt í einu, herra forseti, hefur þessi flokkur og þessi hv. þingmaður ekki áhuga á því að vinna af vandvirkni að lagasetningu vegna þess að það hentar ekki, vegna þess að Píratar eru í forsvari hinum megin við götuna í Ráðhúsi Reykjavíkur og nú skiptir ekki máli að vel sé um allt gengið, að það sé unnið af vandvirkni og það sé unnið af gegnsæi og það sé unnið hér þannig að ekki komi til fjárhagslegs og réttindalegs skaða, sem er einmitt hættan í þessu máli, eftir þetta álit sem við erum nýbúin að fá um að málið standist ekki lög um skipan opinberra framkvæmda. Þess vegna, herra forseti, bið ég í mikilli einlægni forseta um að taka þetta mál tafarlaust af dagskrá, fresta því þannig að það fari ekki svo að Alþingi sé að setja lög sem fari í blóra við fyrirliggjandi lög um skipan opinberra framkvæmda.

Að því sögðu er ljóst að ég kemst ekki lengra með þetta mál og verð að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.