150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:30]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég hef verið að fara hér aðeins yfir helstu ákvæði frumvarpsins sem liggur fyrir um að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er hlutafélag sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkissjóður ætla að stofna með sér eða það er stefnt að því ef frumvarpið verður að lögum. Það sem ég vildi staldra aðeins við, herra forseti, er það sem segir t.d. í 7. gr. þar sem er verið að tala um yfirtöku og þróun lands í eigu ríkisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Félagið skal með sérstökum samningi við ráðherra taka við landi í eigu ríkisins ásamt þeim réttindum og skyldum sem því tengjast og telst það hluti af hlutafjárframlagi ríkisins. Í samningnum skal m.a. ákvarða afmörkun lands og skilyrði afhendingar þess til félagsins.“

Og þá kemur maður að því sem skiptir máli. Í Keldnalandinu eru nú þegar fyrir mannvirki. Þar eru ýmis mannvirki á vegum Keldna, rannsóknaseturs, og þessa starfsemi þarf að flytja í burtu og þá þarf náttúrlega að finna þeirri starfsemi nýjan stað og sömuleiðis byggja þá ný húsakynni fyrir starfsemina og þessu öllu fylgir kostnaður. Það er t.d. væntanlega töluverður kostnaður við að fá nýja lóð og hvar hún á að vera? Er það Reykjavíkurborg sem á að úthluta henni o.s.frv.? Það er ekkert um það hér, herra forseti, hver eigi að bera kostnaðinn af þessu og það finnst mér vera mikill ágalli. Það er eins og bara sé gert ráð fyrir því að ríkissjóður sjái um þetta eins og svo margt annað í þessu samkomulagi. Ég tel það fullkomlega óeðlilegt. Ég held að í þessu efnum sé náttúrlega eðlilegt að þessu sé skipt á milli miðað við hlut hvers eiganda í félaginu og þess vegna vantar hér, að mínum dómi, ákvæði til breytingar þess efnis að kostnaður ríkisins við að flytja starfsemi stofnana ríkisins af landinu og koma henni fyrir á öðrum stað greiðist af öðrum eigendum í hlutfalli við eignarhlutdeild þeirra. Þetta er hlutur sem mér finnst að vanti þarna inn í og eigi að vera þarna. Það þarf að liggja fyrir hver eigi að sjá um þennan kostnað og það er eðlilegt að það sé náttúrlega bara í hlutfalli við eignarhlutdeild innan félagsins. Ég ætla að vona að menn horfi í þetta og að þetta ákvæði verði skýrt betur.

Ég vil einnig koma aðeins inn á 6. gr. þar sem rætt er um samning um uppbyggingu innviða. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríki og sveitarfélög skv. 1. gr. gera samning við félagið, einn eða fleiri eftir þörfum, þar sem nánar verður kveðið á um hlutverk félagsins vegna uppbyggingar samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Í samningi milli aðila skal m.a. kveðið á um fjármagnsskipan félagsins, nánari útfærslu einstakra framkvæmda, eignfærslu mannvirkja sem og ráðstöfun þeirra við slit félagsins.“

Eignfærslu mannvirkja og ráðstöfun þeirra við slit? Þetta er nauðsynlegt að skýra frekar. Það er alveg ljóst. Það er ekki að sjá í athugasemdum við 6. gr. Þar segir um 6. gr., með leyfi forseta: „… eignfærslu mannvirkja til viðeigandi rekstraraðila sem og ráðstöfun annarra eigna við slit félagsins“.

Svo segir: „Ekki er miðað við að félagið sem slíkt beri ábyrgð á rekstri einstakra vegamannvirkja.“

Það er ekkert talað um það á hvaða verði þessar eignir eiga þá að færast yfir. Þess vegna er nauðsynlegt að það komi fram, og að mínum dómi eðlilegt, að það verði á heildarkostnaðarverði.

Ég sé að tíminn er liðinn, herra forseti. Eftir að ég hef tekið til andsvara óska ég eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.