150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði að fjalla aðeins um fund í fjárlaganefnd, sem var í gærkvöldi, þar sem við fengum umsagnaraðila sem fjallaði um lög um skipan opinberra framkvæmda. Þar var ýjað að því við nefndina að þetta fyrirkomulag gengi einhvern veginn gegn lögum um skipan opinberra framkvæmda. Síðan kom fjármálaráðuneytið í heimsókn eftir það og fór mjög skýrt og skilmerkilega yfir það hvernig það stæðist ekki og vísaði sem sagt í það hvernig verkferli Vegagerðarinnar er og að öll félög á vegum hins opinbera þurfa að fara eftir lögum um skipan opinberra framkvæmda þó að það sé ekki tekið fram sérstaklega eins og t.d. í þessum lögum. Mig langaði til að fá staðfestingu hv. þingmanns á því að sá skilningur hafi verið sá sami hjá honum og hjá mér.