150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta kom mér ekkert voðalega á óvart. Umsagnaraðilinn var pantaður frá Miðflokknum og fór yfir þetta mál sitt í frekar ónákvæmum atriðum og gat ekki útskýrt á greinilegan hátt hvað það var nákvæmlega sem braut gegn lögum um opinberar framkvæmdir. Því að í öllum verkferlum sem eftir eru, í þeim verkefnum sem um ræðir er áætlanagerðin ekki byrjuð. Ef ekki er búið að klára frumathugun þá er enn þá hægt að gera það áður en áætlanagerð fer í gang. Það er ekkert í þeim verkferlum og skipun þessa félags sem brýtur gegn lögum um skipan opinberra framkvæmda. Það kom rosalega skýrt fram í máli fjármálaráðuneytisins og ekkert sem hv. þingmaður hefur sagt eða kom fram í máli umsagnaraðila gengur gegn því, ekki neitt.

Mér leikur forvitni á að vita hvort þingmaðurinn getur talið upp eitt atriði, bara eitt atriði sem einmitt brýtur skýrt og skilmerkilega lög um opinberar framkvæmdir. Það hefur verið talað um að rekstraráætlanir séu það stig sem kemur á eftir frumathugun. Það er ekki byrjað á áætlanagerðinni samkvæmt lögum um opinberar framkvæmdir. Það er enn þá á því stigi framkvæmda að frumathugun getur klárast áður en það hefst. Þetta á við um margar mismunandi framkvæmdir þarna. Þær eru sumar mun seinna á framkvæmdastigi þannig að það er langt í að það þurfi að byrja á frumathugun hvað þær varðar. En við erum samt með fullt af skýrslum um það hvernig þetta mun líta út þegar á heildina er litið (Forseti hringir.) þannig að það sé hægt að ganga í forgangsröðun á þessum verkefnum. (Forseti hringir.) Þannig að ef þingmaðurinn getur bara nefnt eitt atriði, bara eitt atriði væri vel þegið.