150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:02]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Greint hefur verið frá því að á fund fjárlaganefndar í gærkvöldi hafi komið hæstaréttarlögmaður, sem jafnframt er löggiltur endurskoðandi og með mikla reynslu af málum af þessu tagi, og að hann hafi gert mjög skýrar og greinargóðar athugasemdir við það mál sem hér er til umræðu, og sagt að það stangist alvarlega á við lög um skipan opinberra framkvæmda.

Herra forseti. Þessi lög eru nr. 84/2001. Þetta er mjög metnaðarfull löggjöf og er ástæða til að líta aðeins á hana í þessu samhengi vegna þess að með þessari löggjöf er leitast við að formbinda ferilinn í kringum gerð, viðhald eða breytingu mannvirkis sem kostað er af ríkissjóði að nokkru eða öllu leyti, eins og segir í 1. gr. laganna. Og það er lögfest að meðferð máls kemur fram í 2. gr. varðandi opinbera framkvæmd frá upphafi uns henni er lokið. Hún fer eftir ákveðinni boðleið er skiptist í fjóra áfanga og þessir áfangar eru frumathugun, áætlunargerð, verkleg framkvæmd og skilamat.

Herra forseti. Þetta mál er illa unnið og ófullburða. Ég leyfi mér að nota þessi orð vegna þess að hugtakið borgarlína, sem er notað til að lýsa stærstu framkvæmd sem það lagafrumvarp sem við fjöllum um hér tekur til, er ekki einu sinni almennilega skilgreint. Það liggur ekki nákvæmlega fyrir hvað þetta er og í þessu máli öllu er ekki einu sinni minnst á eitt af stærstu verkefnunum sem liggur fyrir að ráðast þarf í hér á höfuðborgarsvæðinu, og það er Sundabraut.

Lítum á það sem segir í lögum um skipan opinberra framkvæmda um frumathugun. Þar segir í 3. gr. að frumathugun sé könnun og samanburður þeirra kosta er til greina koma við lausn þeirra þarfa sem framkvæmdinni sé ætlað að fullnægja. Þessari borgarlínu er náttúrlega ætlað að fullnægja ákveðinni þörf fyrir almenningssamgöngur og greiða götu þeirra og ýmislegt. En hvar er könnun og samanburður á henni við aðra kosti sem til greina koma? Það er hvergi að því ýjað í þessum málatilbúnaði öllum saman.

Það segir áfram í 2. mgr. 3. gr. að í greinargerð um frumathugun — þarna er náttúrlega ráðagerð um að það liggi fyrir skrifleg greinargerð — skuli vera áætlanir um kosti og þar segir að þessar áætlanir skuli vera tvíþættar. Hverjir eru þessir tveir þættir? Jú, það eru nákvæmlega þeir þættir sem við höfum nefnt hér nokkrum sinnum, þingmenn Miðflokksins, þ.e. annars vegar áætlun um stofnkostnað — ekkert er um það nema bara einhverjar tölur gripnar utan úr geimnum að því er best verður séð og enginn heldur því fram að þær feli í sér haldbæra áætlun um stofnkostnað við þessa svokölluðu borgarlínu — og hins vegar áætlun um árlegan rekstrarkostnað, þar á meðal lánsfjárkostnað og tekjur ef við á. Þetta er það sem heitir á mæltu máli rekstraráætlun. Og það liggur fyrir að þessi rekstraráætlun er ekki til, þannig að það ætti náttúrlega bara að vísa þessu máli frá, herra forseti.