150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var að fara yfir greinargerð frumvarpsins og var byrjaður að fjalla um 6. kaflann sem fjallar um mat á áhrifum þessara laga. En í millitíðinni gerðist það að hv. þm. Birgir Þórarinsson kom hér með stórmerkilegt innlegg í umræðuna og upplýsti okkur um að það megi að mati sérfræðings einfaldlega ekki samþykkja frumvarpið eins og það er lagt fram því að lög um opinber fjármál leggi þá eðlilegu skyldu á herðar ríkisins að gera grein fyrir frumathugun á þeirri framkvæmd sem ráðist er í áður en fjármagn er sett í hana. Ég tala nú ekki um áður en farið er út í að stofna nýtt ríki til að hafa umsjón með þessu, að afla fjármagns og hrinda þessu í framkvæmd.

Ég held að ég þurfi að halda sérstaka ræðu um það mál, enda er það mjög sláandi, herra forseti, að slík frumathugun liggi ekki fyrir. Það liggur ekki einu sinni fyrir rekstraráætlun og allar tölur um framkvæmdakostnað eru mjög á reiki. Það er tilefni í sérstaka ræðu. En ég ætla í millitíðinni að klára yfirferð mína um 6. kafla um mat á áhrifum því að hann leggur einmitt ágætisgrunn að því sem ég mun fjalla um síðar, sem er hvers vegna þetta frumvarp uppfyllir ekki skilyrði laga um opinber fjármál. En í 6. kaflanum segir m.a., með leyfi forseta:

„Með samþykkt frumvarpsins yrði stigið mikilvægt skref í þá átt að framangreindum markmiðum verði náð og að ráðist verði í nauðsynlega uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Þá er jafnframt talið mikilvægt miðað við núverandi efnahagshorfur að ráðist verði í arðbær fjárfestingarverkefni hér á landi til að örva efnahagslífið og atvinnusköpun.“

Arðbær fjárfestingarverkefni til að örva efnahagslífið og atvinnusköpun — ætla menn að reyna að halda því fram að borgarlínuverkefnið, sem menn hafa ekki einu sinni treyst sér til að gera rekstraráætlun fyrir þrátt fyrir að ætlast sé til þess að ríkið og almenningur leggi tugi milljarða, hundruð milljarða í verkefnið, sé arðbært verkefni? Ef svo er, ættu hinir sömu að koma hér upp og útskýra það, enda segir í greinargerð að áherslan núna þurfi að vera á arðbær fjárfestingarverkefni sem örva efnahagslífið og atvinnusköpun.

Örvar það efnahagslífið og atvinnusköpun að þrengja að umferð á höfuðborgarsvæðinu og auka enn á umferðarteppurnar sem koma einmitt í veg fyrir að fólk komist til og frá vinnu, að þeir geti sinnt störfum sínum sem þurfa að ferðast á meðan þeir eru í vinnu? Ætla menn að halda því fram að slíkt efli efnahagslífið og auki atvinnusköpun? Það væri mjög áhugavert að heyra rökin fyrir því en þau vantar alveg, enda var ætlunin að þetta mál færi í gegn með sem minnstri umræðu eins stórt og það nú er. Eins og ég vék að áðan, þegar ég útskýrði að ákveðið hefði verið að setja drögin ekki í samráðsgátt stjórnvalda þar sem frumvörp eru almennt kynnt fyrir almenningi og hagsmunasamtökum og öðrum sem gætu viljað hafa skoðun á þeim, er það einfaldlega vegna þess að yfirlýst markmið og eðli málsins stangast algerlega á.

En í þessum kafla um mat á áhrifum segir einnig, með leyfi forseta, og nú komum við að fasteignafélagi ríkisins:

„Þá verður land ríkisins að Keldum lagt til félagsins sem fær það hlutverk að annast þróun og sölu þess. Allur ábati af sölu landsins mun renna óskertur til verkefnisins um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ef ábatinn verður minni en 15 milljarðar kr. mun ríkið tryggja að …“

(Forseti hringir.) Herra forseti, ekki er gott að vera stöðvaður í miðri setningu sem er ein af meginsetningum þess sem ég ætlaði að ræða hér í ræðu minni og ég bið því hæstv. forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.