150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég er að velta fyrir mér áfram spurningum um kostnaðinn og fyrirkomulagið á þessu öllu saman sem ég tel að sé allt of óljóst. Það má líka hugsanlega setja þetta í samhengi við að miklu er til kostað hjá þeim sem bera þetta mál fram á þinginu og bera ábyrgð á því líka í sveitarfélögunum í kring. Miklu er til kostað að gera einkabílnum, fjölskyldubílnum, erfitt fyrir. Það er sérstaklega áhugavert að sjá hvernig þessi svokölluðu bláu sveitarfélög, þar sem Sjálfstæðismenn, með Framsóknarmenn sums staðar með sér, hafa stýrt sveitarfélögunum, hafa lagst á árar með sósíalistunum sem vilja helst koma einkabílnum í burtu. Það er allsérstakt og kann að skýra það að Sjálfstæðisflokkurinn á þingi ætlar sér að fara þessa leið.

Það er hins vegar kostnaðurinn sem gerir það að verkum að við erum að kalla eftir upplýsingum og spjalla um þetta mál. Við viljum fá ákveðna þætti skýrða í málinu en ekki endilega þessa ábyrgð, þessa stefnubreytingu sem virðist vera hjá hinum stjórnmálaflokkunum, sér í lagi Sjálfstæðisflokknum og Framsókn. Þetta er orðið þannig að það má vart á milli sjá hvaða flokkur er hvað orðinn. Það er helst að við í Miðflokknum reynum að vera eitthvað öðruvísi en allir hinir flokkarnir. En það er vitanlega okkar að bera upp þessar spurningar. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson fór reyndar ágætlega yfir ákveðinn tvískinnung hér í máli sumra.

Ef það er þannig að heildarábyrgð ríkissjóðs samkvæmt þessu samkomulagi öllu saman, hlutafélaginu og öllu sem á því hangir, sé upp á einhverja 105, 110, 115 milljarða og þá veltir maður fyrir sér hvort sú áhætta sé réttlætanleg. Ég segi nei. Hún er það ekki miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir. Þá fer maður hugsa hvort það er sérstaklega mikil áhætta af einhverjum af þessum verkefnum, samgönguverkefnum sem slíkum, þ.e. því sem á að fara í, gatnagerð, mislæg gatnamót fyrir fjölskyldubílinn og þess háttar ef af því verður, því að það er vitanlega ekkert ljóst að það gangi í gegn því að borgin mun örugglega reyna að koma í veg fyrir það með öllum mögulegum hætti og eins með Sundabraut. En eftir standa þessir 50 milljarðar eða hvað það er sem ríkið ætlar að setja í borgarlínu.

Ég hef áður minnst á það í ræðum mínum að reynslan af slíkum verkefnum er að þau fara langt fram úr áætlunum. Hvers vegna skyldi það ekki gerast hér líka? Enda kennir reynslan okkur það að verkefnin fara fram úr. Við höfum séð borgarstjórnarmeirihlutann núna sérstaklega kærulausan um slíkt og með ólíkindum að sá meiri hluti skuli í rauninni geta setið áfram miðað við fjárhagsstöðu borgarinnar og öll þau hneyksli sem í kringum fjármálastjórnina hafa verið. Ég minni á dæmi frá Noregi, ég held það hafi verið í Stafangri, þar sem átti að leggja, það er reyndar ekkert að því, menn fóru í að búa til borgarlínu einhvers konar sem átti að kosta 50 milljarða, held ég að hafi verið, endaði í tvö hundruð og eitthvað milljörðum, 50 km eða 60 km ef mig misminnir ekki. Kílómetrinn átti að vera rúmur milljarður, endaði í einhvers staðar á milli 3 og 4 milljarðar.

Þannig að það er ekki nema von að við sem höfum áhyggjur af stöðu ríkissjóðs stöldrum aðeins við og viljum fá að vita hver ábyrgðin er. Ef þessir 50 milljarðar sem ríkissjóður ætlar að skuldbinda sig til í þessu á að verða að 150, 200 milljörðum er bara allt önnur staða uppi. Dæmið er bara allt öðruvísi, ekki síst á tímum núna þar sem við vonum auðvitað að ríkissjóður braggist, auðvitað vonum við að við náum aftur að gera ríkissjóð skuldléttan og allt slíkt. En eins og dæmið lítur út í dag, samdráttur og ekki endilega fyrirséð að hann lagist á allra næstu árum er mjög mikilvægt að reyna að girða fyrir svona óheft útgjöld. Það er ekki verið að gera eins og staðan er í dag, herra forseti.