150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:50]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég ætla bara að grípa boltann á lofti frá síðasta ræðumanni, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni. Þetta er náttúrlega ekkert annað en fúsk og hér er kominn til sögunnar hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi sem kom á fund hv. fjárlaganefndar í gærkvöldi og greindi frá því með hvaða hætti þetta mál rekst á lög um skipan opinberra framkvæmda. Þau eru nr. 84/2001, herra forseti, og þar er lögmælt hvernig staðið skuli að framkvæmdum. Það eru fjórir þættir, frumathugun, áætlunargerð, verkleg framkvæmd og skilamat og skemmst er frá því að segja að ekkert af þessu liggur fyrir. Í ákvæðum tilvitnaðra laga segir um frumathugun að í greinargerð um hana skuli vera áætlanir um kosti og þessar áætlanir skulu vera tvíþættar, segir í lögunum. Það er annars vegar áætlun um stofnkostnað og hins vegar áætlun um árlegan rekstrarkostnað, þar með talið lánsfjárkostnaður og tekjur, ef við á.

Þetta er það sem við höfum verið að kalla eftir hér í þessum umræðum, þingmenn Miðflokksins, og þar segir enn fremur að í greinargerð um frumathugun skuli skýrt frá þeim rökum er liggja að vali kosts þess sem tekinn er, þar á meðal hagkvæmnireikningum sem notaðir eru í samanburði. Það er nákvæmlega það sem við höfum fjallað hér um. Það vantar samanburð á kostum. Það liggur til að mynda fyrir að umhverfisverkfræðingur, það er ekki bara einhver Jón Jónsson úti í bæ, það er umhverfisverkfræðingur sem ritaði grein um þetta fyrirbæri, þessa svokölluðu borgarlínu, í Kjarnann í mars 2019, þar sem hann heldur því fram að hægt sé að ná þeim markmiðum sem að er stefnt varðandi almenningssamgöngur með því að verja til málsins nokkrum milljörðum en ekki tugum milljarða eins og hér er lagt upp með. Það gæti náttúrlega þegar upp verður staðið endað með hundruðum milljarða ef tekið er mið af því hversu mjög framkvæmdakostnaður hefur á stundum farið fram úr áætlunum. Hagkvæmnireikningar sem þarna er getið um að eigi að liggja fyrir er annað orð yfir það sem stundum er kallað arðsemismat eða arðsemisgreining og það er það sem ég hef, og fleiri hv. þingmenn Miðflokksins, margítrekað að væri nauðsynlegt að lægi fyrir.

Ekkert af þessu liggur fyrir og það er jafnframt rétt að líta á ákvæði laganna um áætlunargerð. Þar er gert ráð fyrir því að áætlunargerð um opinberar framkvæmdir skuli vera í tvennu lagi, annars vegar fullnaðaruppdrættir og tæknileg verklýsing á þeirri framkvæmd sem fyrirhuguð er o.s.frv., og hins vegar rekstraráætlun sem nái til minnst fimm ára eftir að framkvæmd er lokið. Það liggur fyrir að það er engin rekstraráætlun um þetta gríðarmikla og dýra verkefni, engin rekstraráætlun, og kannski eru eðlilegar skýringar á því. Kannski er skýringin á því að menn treysta sér ekki til að sýna rekstraráætlun sem mun án nokkurs vafa sýna mikinn taprekstur. Það er útilokað annað, það er bara alveg fyrirsjáanlegt. Það er útilokað annað en að slík rekstraráætlun sýni mikinn taprekstur

Síðan er hitt, eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rakti í síðustu ræðu sinni, að áformin eru ósköp einfaldlega um það að skattgreiðendur hér í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu og aðrir eigi að borga fyrir þetta með svokölluðum flýti- og umferðargjöldum og þar er bara opinn krani á vasa skattgreiðenda. Þannig að þetta mál er í sínum innsta kjarna bara skattlagningarfrumvarp og, eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rakti svo ítarlega og vel, er það fólkið sem situr í umferðarteppum sem fyrst og fremst á að borga þetta af því að það eru ekki nema kannski 4–5% sem nýta sér almenningssamgöngur og þrátt fyrir mikla viðleitni til að hækka það hlutfall síðastliðin níu ár með miklum tilkostnaði á ári hverju hefur ekki tekist að hækka það hlutfall að mun. Þannig að þið sem sitjið í umferðarteppum, þið megið bara gjöra svo vel að borga fyrir þessa glórulausu vitleysu. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég bið um að vera settur að nýju á mælendaskrá.