150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Mig langar að halda áfram með þessi nýju tíðindi, sem okkur bárust í gærkvöldi, um að vafi leiki á að það frumvarp sem við erum að fjalla um hér standist ákvæði laga um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001. Nú ber okkur alþingismönnum og þinginu að vanda mjög til lagasetningar. Okkur ber að vinna þau verk af eins mikilli alúð og okkur er kostur og af eins mikilli ábyrgð og okkur er kostur. Til þess þurfum við náttúrlega að hafa bestu upplýsingar við höndina og við þurfum líka að hafa tíma til þess að gaumgæfa þau mál sem við erum að vinna við. Í því ástandi sem hér hefur ríkt undanfarið hafa mál gengið hratt, sum of hratt, í gegnum þingið, en það hefur enginn í sjálfu sér hreyft mótmælum við því vegna þess að ástandið er eins og það er og núverandi stjórnarandstaða hefur sýnt mikla ábyrgð í störfum sínum vegna þess.

En hér erum við með frumvarp í höndunum, herra forseti, sem tengist heilbrigðisástandinu sem hér hefur ríkt ekki á nokkurn skapaðan hátt og í sjálfu sér er ekkert sem rekur á eftir því að þetta mál sé afgreitt í flýti hér á þinginu. Það segir í 3. gr. laga um skipan opinberra framkvæmda, með leyfi forseta:

„Frumathugun er könnun og samanburður þeirra kosta er til greina koma við lausn þeirra þarfa sem framkvæmdinni er ætlað að fullnægja.

Í greinargerð um frumathugun skulu vera áætlanir um kosti. Þessar áætlanir skulu vera tvíþættar, annars vegar áætlun um stofnkostnað, þ.m.t. kostnað við áætlunargerð, og hins vegar áætlun um árlegan rekstrarkostnað, þ.m.t. lánsfjárkostnað og tekjur, ef við á. Í greinargerðinni skal skýrt frá þeim rökum er liggja að vali kosts þess sem tekinn er, þar á meðal hagkvæmnireikningum, sem notaðir eru í samanburði. Greinargerð um frumathugun skulu auk þess fylgja tillögur um staðsetningu og stærð, svo og frumuppdrættir að fyrirhugaðri framkvæmd, eftir því sem við á. Frumathugun fer fram á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis, ríkisstofnunar, sveitarfélags eða annarra væntanlega eignaraðila.“

Hér erum við að tala um þá skyldu ríkisins, herra forseti, sem ætlar að leggja fram 75% af þeim kostnaði sem þarf til að koma þessu apparati á lappirnar og ekkert af þessu sem ég taldi upp hefur verið framkvæmt, ekki neitt. Það er engin frumathugun til. Það eru engar almennilegar áætlanir til um stofnkostnað, hvað þá um rekstrarkostnað. Þær eru ekki til. Það er ekki búið að leggja fram nein rök um það eða samanburð eða neitt af þessu verkefni og öðrum, eins og á að gera af því að það kemur ekkert fram í frumvarpinu um hvaða framkvæmdakostir voru bornir saman. Það er bara tekin ákvörðun. Það vantar t.d. alla tekjuspá þannig að allt er þetta mál í skötulíki.

Það sem er undarlegast, herra forseti, er hvað sá flokkur segir sem telur sig ganga harðast fram í því að gegnsæi ríki um allar þær ákvarðanir sem Alþingi er að taka, að allar bestu upplýsingar liggi fyrir, að menn vandi sig mjög við framkvæmdina. Svo mikið liggur mönnum á við þetta að þeir hafa skrifað greinar í blöð um hvað Alþingi sé ömurlegt að þessu leyti, að það uppfylli ekki þessi skilyrði og sé að troða lögum í gegn á ógnarhraða án þess að menn geti gaumgæft. En núna, herra forseti, er allt í lagi að gera það vegna þess að yfirmenn samgöngumála í Reykjavíkurborg eru Píratar. Þannig að meðan það er uppi, herra forseti, meðan það ástand ríkir, er allt í lagi að vaða hér upp með mál sem eru illa reifuð, (Forseti hringir.) illa úr garði gerð af því að það hentar Pírötum núna.

Ég er hvergi nærri búinn með það sem ég ætlaði að segja um þetta þannig að ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.