150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

almannatryggingar.

437. mál
[13:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti meiri hluta er fjallað um kostnaðarmatið og þar er talað um á bilinu 100–300 milljónir. Það er ansi vítt kostnaðarbil sem væri í núverandi ástandi betra að hafa pínulítið nákvæmara. Við erum að fara í gríðarlegan halla með ríkissjóð og hver milljón skiptir máli og það er gott að hafa það svona á bak við eyrað þegar við tökum ákvarðanir um fjármögnun, að reyna að vanda sig aðeins með kostnaðarmatið og áætlanagerðina.

Ég sé að í breytingartillögunum eru ekki háar upphæðir en við erum samt með þetta bil 100–300 milljónir sem bætist ofan á. Kannski hækkar það upp í 110–330 eða eitthvað svoleiðis. Hver veit? En matið kemur ekki fram í frumvarpinu sjálfu. Nefndin kemur þarna með mjög gróft kostnaðarmat samkvæmt umsögn ráðuneytisins og maður veltir því fyrir sér hvort fólk taki þann hluta laga um opinber fjármál nægilega alvarlega. Alla vega miðað við reynslu mína í fjárlaganefnd er tiltölulega miklu ábótavant þar.