150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Nákvæmlega, þetta hefði ekki kostað neitt extra nema náttúrlega einhver smávægileg laun fyrir þá sjö aðila sem sætu þarna. En hvað segir í nefndaráliti þessarar sömu nefndar um Matvælasjóð, sömu aðila og vilja ekki gera þetta varðandi Orkusjóð? Þar segir, með leyfi forseta:

„Fram komu ábendingar frá gestum um að æskilegt gæti verið að fá fulltrúa fleiri aðila í stjórn sjóðsins. Skv. 4. málsl. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er stjórn sjóðsins heimilt að skipa fagráð sér til ráðgjafar. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að með aðkomu sem flestra væri unnt að tryggja að sú fjölbreytta þekking sem til staðar er og nýst hefur í þverfaglegu samstarfi matvælafyrirtækja nýtist í vinnu sjóðsins.“

Svo kemur það: „Meiri hlutinn fellst á mikilvægi þess að tryggja breiðari aðkomu að sjóðnum svo tryggt verði að markmið sjóðsins nái fram að ganga.“

Ég fór yfir markmiðin áðan, þetta eru víðtæk markmið. Það þarf virkilega passa í tilfelli Orkusjóðs að það séu fleiri en bara þrír aðilar sem þurfa hugsanlega að tala við einhvern.

Áfram, með leyfi forseta:

„Í því ljósi leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að stjórn sjóðsins verði skylt að skipa allt að sjö manna fagráð til fjögurra ára í senn. Fagráð verði stjórninni til ráðgjafar um fagleg málefni og veiti umsagnir um úthlutanir úr sjóðnum auk almennrar ráðgjafar við stjórnina eftir því sem hún óskar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að m.a. verði“ — eins og hv. þingmaður nefnir að sé mikilvægt — „litið til háskólasamfélagsins við skipan fagráðs ásamt því að líta til reynslu og þekkingar úr atvinnulífinu og til frumkvöðla og nýsköpunargeirans.“

Er eitthvað minna mikilvægt að gera þetta við Orkusjóð en við Matvælasjóð? Að sjálfsögðu ekki. Þetta býður bara upp á freistnivanda. Það að meiri hlutinn vilji ekki gera þetta fær mig virkilega til þess að hafa áhyggjur af því að ekki eigi að skjóta loku fyrir freistnivanda í þessu máli.