150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja, með fullri virðingu fyrir matvælum alls konar og ekki síst með fullri virðingu fyrir íslenskum matvælum, að ég tel meiri almannahagsmuni liggja undir að við förum vel með málefni Orkusjóðs. Ein besta leiðin til að tryggja að það ríki sátt um svona mikilvæga vinnu er, eins og við vitum, að gegnsæi sé til staðar og þá ekki síst gegnsæi í því hvernig menn eru valdir, hvernig fólk er valið til að sýsla með þetta. Þannig að ég er sammála hv. þingmanni að þetta er sérstakt.

Ég velti fyrir mér hvort 5. gr. frumvarpsins, um eftirlitið, að þeir sem hljóta styrk eða lán skuli gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár, geti að einhverju leyti komið sem svar við áhyggjum um eftirlitshlutann og freistnivandann, um að það sé eitthvað sem ekki þoli dagsljósið sem menn geta haft áhyggjur af. Ég er meira upptekin af því að það skortir áherslur á nýsköpun, á faglegu þekkinguna. Ég geri ekki lítið úr hinu en ég er svolítið á þeim stað. Mér hefði fundist það svo borðleggjandi. Það er ekki nægilega mikil áhersla lögð á þann hlut sem er okkur svo mikilvægur.

Hv. þingmaður talaði um umsagnir sem leiddu til breytinga á Matvælasjóði. Þekkir hv. þingmaður hvernig umsagnir hljóðuðu varðandi þetta tiltekna mál? Var bent á það í umsögnum aðila hvernig stjórnin er skipuð? Er það eitthvað sem hv. þingmaður þekkir og hefur komið til umræðu?