150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:59]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég byrja kannski á því að geta þess að ég fór vitlaust með áðan. Auðvitað eru þetta 33,9 millj. kr. en ekki 33,1 millj. kr. í fjárlögum ársins í ár. Það er hér með leiðrétt. Þessi 800.000 kall nýtist vonandi vel. Staðreyndin er að þessi 800.000 kall, og reyndar þessar 33,9 millj. kr., eiga ekki eftir að hafa nein grundvallaráhrif á samkeppnishæfni Íslands þegar við horfum á þekkinguna sem býr hér á landi í jarðvarmaorku, virkjanagerð og reyndar fleiru. Það eru rafhlöðufyrirtæki á Íslandi sem eru að gera flotta hluti. Það eru fyrirtæki á Íslandi sem eru að nýta vetni og metan og fleiri orkugjafa á ótrúlega áhugaverða vegu. En fræðimenn sem vilja vinna að þessu þurfa að eyða 20–30% af tímanum sínum ýmist í að skrifa umsóknir um styrki eða skýrslur um árangurinn af þeim styrkjum sem þeir hafa fengið. Þetta er ekki skilvirkt. Þetta er ekki góð nýting á almannafé. Ég skil mikilvægi þess að umsóknir séu gerðar og að það sé eftirfylgni. Annars gæti fjármagni verið illa varið, til fólks sem hefur ekkert á bak við sig. En við verðum að finna leiðir til að árangurinn sé vitnisburðurinn í einhverjum tilfellum. Það er eitt. Hitt eru þessar 300 millj. kr. sem eiga að fara í orkuskipti og það eru ekki nema 33,9 millj. kr. sem fara í Orkusjóð. Reyndar er ekki einu sinni endilega fullkomið samræmi þar. Hvert fer afgangurinn? Hvaðan er því fé útdeilt og með hvaða hætti? Ég hef ekki þær upplýsingar, því miður.