150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:02]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Hann byrjaði á máli sem ég ætla að ræða svolítið á eftir, þ.e. hvernig Orkusjóður nýtist og hvernig hann gæti nýst til orkuskipta, sem er sannarlega mikilvægt verkefni, eins og fram hefur komið. En eins og hv. þingmaður velti upp: Er þetta það sem breyta mun orkugjöfum landsins? Hv. þingmaður talaði töluvert um þessar 33,9 millj. kr. sem eru eyrnamerktar Orkusjóði og kannski ágætt að það komi fram að þær eru fyrst og fremst hugsaðar til reksturs sjóðsins, þ.e. launa starfsmanna, utanumhalds og umsýslu. Eins og fram hefur komið hafa líka verið settir fjármunir í það sem sjóðnum er falið að úthluta, ég held að á síðasta ári hafi 250 millj. kr. verið úthlutað til þess að byggja upp innviði fyrir rafbíla. Sömuleiðis voru 30 millj. kr. sérstaklega eyrnamerktar hótel- og gististöðum um landið og ég held að sjóðurinn hafi staðið sig vel í að úthluta þeim fjármunum, enda staðsettur á Akureyri. En það er annað mál og hefur ekkert með hæfni hans að gera. [Hlátur í þingsal.]

En mig langaði að spyrja hv. þingmann í þessu samhengi: Það eru fjórar mismunandi stefnur. Vonandi fara þær saman, vonandi tala þær ekki hver gegn annarri. En þrátt fyrir að það sé meira fé í boði, jafnvel allt að hálfum milljarði, að mér telst rétt til, það er náttúrlega mismunandi eftir árum, eru það samt ekki allt of litlir fjármunir fyrir svona mikilvægt verkefni?