150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það væri nú þannig að við gætum fundið eina manneskju sem hefði alltaf rétt fyrir sér þá þyrftum við ekki að vera hér að vafstra, svo mikið er víst. Það er nú ekki þannig að einhver hafi alltaf rétt fyrir sér. En áhyggjur mínar snúa að því að þessi iðnaður, orkuiðnaður, mun stækka mjög mikið. Maður gerir ráð fyrir að mjög mikið verði um alls konar hagsmunaárekstra. Margir aðilar sækja um sömu verkefni og vinna að sömu verkefnum. Vonandi er samkeppni úti um allt og að því leyti sem hún er ekki þá hefur maður alltaf sömu áhyggjurnar af því. Kerfið sem er sett upp, áður en uppgangurinn hefst, getur skipt svo gríðarlega miklu máli þegar fram í sækir. Þó að upphæðirnar séu kannski ekki háar núna og umfangið ekki stórt þá getur það breyst og ég vona og við vonum að það breytist, að hér verði þvílík gróska í orkumálum að við getum eftir á sagt við okkur sjálf að það hafi verið gott að við fórum varlega og reyndum að gera hlutina eins faglega og mögulegt var.