150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er áhugavert vegna þess að ef við berum þetta saman við Loftslagssjóð, sem fær kannski 80 milljónir eða svo á ári til að úthluta, þá er hann með fagráð og stjórn og er kannski öllu formlegra fyrirbrigði. En samt mætti segja að sá sjóður mætti vera miklu stærri. En hvað um það. Hvað varðar verkefni Orkusjóðs — mér finnst þetta nefnilega svolítið áhugavert — var ég t.d. ekkert sérlega meðvituð um þau en vegna þess að hv. þingmaður gerði jarðhitann að umtalsefni í ræðu sinni hef ég oft haft þá tilfinningu og þá skoðun að við mættum líka nýta jarðhitann töluvert betur en við gerum. Það mætti endurnýta hann, það mætti að nota þessa mikilvægu auðlind okkar miklu betur en nú er gert. Þannig að ef hv. þingmaður hjálpar mér aðeins: Er þetta eitthvað sem hún veit til að Orkusjóður hafi verið að gera eða standi til hjá honum? (Forseti hringir.) Eða finnst hv. þingmanni bara yfir höfuð að Orkusjóður ætti að taka sér þetta verkefni fyrir hendur? Vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt.