150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:34]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa skemmtilegu spurningu. Þarna hitti hún akkúrat á sérstakt áhugaefni mitt sem er bætt nýting jarðhita. Það er í raun verkefni sem ég var í áður en ég kom hingað inn á þing. Það er svo magnað með hitann að við getum margnýtt hann. Við notum hann náttúrlega til að hita húsin okkar. Við notum hann til að framleiða rafmagn. En meira að segja eftir að við erum búin að hita húsin okkar og eftir að við erum búin að framleiða rafmagn er enn þá fullt af orku eftir í heita vatninu sem við erum að nýta á ýmsan hátt, eins og við sjáum t.d. á affallinu á Reykjanesinu, þ.e. Bláa lóninu. Við sjáum það líka í Skútustaðahreppi og lóninu þar. Ég held að það séu gríðarlega mikil tækifæri þarna og ég veit að Orkusjóður hefur alla vega verið að styðja við slík verkefni, bæði með þekkingu og hvatningu. Ég hefði gjarnan viljað (Forseti hringir.) geta sagt meira um þetta mál en við erum því miður runnin út á tíma.