150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt málið með t.d. lög um opinber fjármál þar sem kostnaðar- og ábatagreiningar eiga að liggja að baki öllum ákvörðunum sem stjórnvöld taka. Þær greiningar sem okkur voru sýndar hjá Orkubúi Vestfjarða eru tiltölulega augljósar þegar maður skoðar málið í því kostnaðarsamhengi sem þær voru kynntar. Kannski eru einhverjar mótathugasemdir eða eitthvað svoleiðis, þá væri bara fínt að sýna þær. En sjáum aðeins samhengið. Við vorum að tala um hálfan lífeyri og aukin réttindi þar á milli fyrir nokkrum árum. Þar er kostnaðargreiningin 100–300 milljónir, vafamál upp á 200 milljónir til eða frá, sem er nákvæmlega það sem þetta myndi kosta. Þegar hægt er að henda svona upphæð, þannig að hún virðist vera skiptimynt, í lögum um hálfan lífeyri, miðað við ábatann af slíkri fjárfestingu í þau mál sem við ræðum hér, (Forseti hringir.) þá klórar maður sér mikið í hausnum yfir því hvernig virðist staðið að opinberri stefnumörkun (Forseti hringir.) er snertir einmitt köld svæði.