150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú sit með hv. þingmanni í orkustefnunefnd. Við höfum setið þar í tvö ár og mikið rætt um orkumál almennt á Íslandi, rannsóknir, orkunýtni og allt sem viðkemur þessu máli. Það er hægt að fara mjög víða í umræðunni fyrst við erum að fara svolítið út fyrir það sem við erum að eiga við. En það sem við erum raunverulega að gera með Orkusjóð er að gera hann svolítið sjálfstæðari frá því sem verið hefur. Við sjáum fyrir okkur að hann verði raunverulega átakssjóður, að átakið í orkuskipti verði að einhverju leyti tekið í gegnum hann og beinist að því sem stjórnvöld og framkvæmdavaldið sér fyrir sér í þeim málum. Ég efast ekki um að hv. þingmaður sé sammála því að við förum í þá vegferð.

Ég talaði um jarðvarmann áðan og hvað hann sparar okkur mikla fjármuni hér í staðinn fyrir að við værum að hita upp með olíu eða með öðrum hætti. Við gætum sparað 30–40 milljarða í orkukaupum, í innkaupum á olíu, fyrir bílana okkar á hverju ári. Hvað eigum við að gera í þeim málum, hv. þingmaður?