150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:44]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta góða andsvar. Þarna hittir hann naglann á höfuðið. Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að við þurfum að gera miklu meira til að fasa út olíunotkun hraðar en við erum að gera. Af því að ég veit að hv. þingmaður er sérstakur áhugamaður um flug þá fleygir tækninni þar fram og við gætum verið að gera svo miklu meira til að nýta raforku einmitt í það að fasa út olíu og við eigum að gera það. Sjáið fyrir ykkur að eftir nokkur ár gætum við jafnvel verið farin að keyra um eingöngu á innlendu eldsneyti og hvað það myndi gera okkur frjáls í allri utanríkisverslun og öðru slíku. Þarna eru gríðarleg tækifæri, herra forseti. Við eigum að setja okkur þá stefnu og við eigum að vinna að henni með raunverulegum aðgerðum og raunverulegum verkefnum og alvörufjármunum.