150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:46]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka fyrir góða og áhugaverða umræðu um þetta mál og gaman að geta tekið þátt í henni. Breytingarnar á Orkusjóði sem stefnt er að með þessu frumvarpi eru að mínu viti góðar og tímabærar. Ég sé ástæðu til að koma hingað upp til að taka það fram að ég tek sérstaklega undir það sem segir um hlutverk sjóðsins, að það sé að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda landsins með styrkjum eða lánum til aðgerða sem miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum, eins og rakið er í 2. gr. frumvarpsins. Mér finnst jákvætt að sjá að áhugi stjórnvalda á að auka svigrúm sjóðsins og skýra betur hlutverk hans sé vaxandi.

Markmiðin eins og þau eru sett fram eru góðra gjalda verð. Það á að efla lagalegt umhverfi sjóðsins þannig að hann geti betur uppfyllt verkefni sín, þau verkefni sem hann hefur þegar undir höndum en um leið ný verkefni. Ég rak augun í að hér segir að markmiðið sé að það verði gert án þess að það leiði til aukins kostnaðar. Það er vissulega jákvætt og gott markmið um leið en spurning hversu raunhæft það er. Þetta finnst mér vera eitt af þeim atriðum sem maður sér hérna aftur og aftur; markmiðin eru góð og göfug en svo er að sjá hversu raunhæf þau eru og hversu mikið býr raunverulega að baki.

Mér finnst miklu máli skipta að hlutverk sjóðsins sé betur skilgreint. Ég er mikil áhugamanneskja um að regluverk sé skýrt og að af regluverki megi sjá að hverju sé stefnt. Mér finnst þetta frumvarp ná því að einhverju leyti fram en ekki öllu. Mér hefur stundum fundist frumvörp ríkisstjórnarinnar vera dálítið eins og Morgunblaðið, að það veki nánast jafn mikla athygli hvað stendur ekki í þeim og hvað stendur í þeim. En ég myndi þó ekki segja að þetta frumvarp sé þannig því að hér virðist leiðarstefið vera að skýra alla umgjörð og skýra regluverkið og að regluverkið endurspegli raunveruleg hlutverk eins og þau eru í dag og eins og þau koma til með að verða. Þetta eru hlutverk um fyrirkomulag og fjármögnun og sömuleiðis eru þarna punktar um stjórnsýslu sjóðsins. Þetta er auðvitað, að manni virðist, allt saman liður í því að efla sjóðinn í samræmi við t.d. verkefni á sviði loftslagsmála.

Í því sambandi myndi ég vilja taka undir umfjöllun í nefndaráliti meiri hlutans um að upplýsingar um starfsemi sjóðsins séu aðgengilegar. Í 8. gr. frumvarpsins segir að ráðherra skuli setja í reglugerð nánari fyrirmæli um skilyrði fyrir framlögum úr Orkusjóði, undirbúning úthlutunar, lánveitingar og svo er það rakið nánar, þar með talda vexti og önnur útlánakjör, greiðslur o.s.frv. Síðan er rakið í þessari grein, sem fjallar um reglugerðarheimild til handa ráðherra, að stjórn Orkusjóðs geti sett nánari reglur og sett skilyrði um tilfærslu fjármuna milli einstakra verkefna ef nauðsyn krefur. Þá segir í lokin að ráðherra sé heimilað að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi og skipulag Orkusjóðs og framkvæmd laga þessara. Hér má því sjá í 8. gr. að í fyrsta lagi er talað um að ráðherra eigi að setja í reglugerð við ákveðnar aðstæður ákveðna hluti sem þar eru taldir upp. Síðan kemur fram að stjórn Orkusjóðs geti sett nánari reglur hvað þetta varðar, þ.e. um þá þætti sem lúta að fjármunum. Síðan er heimild fyrir ráðherra til að fjalla með nánari hætti í reglugerð um starfsemi og skipulag sjóðsins.

Ég set spurningarmerki við þetta atriði, hvort hér sé nógu langt gengið hvað varðar það markmið að upplýsingar um starfsemi sjóðsins séu aðgengilegar. Það finnst mér koma aðeins inn á það stef sem við ræðum aftur og aftur hér í salnum í sambandi við lagasetningu og stefnu stjórnvalda, þ.e. gagnsæið. Gagnsæi þarf að vera hugtak sem eitthvað efnislegt er á bak við, meira en orð sem sett eru fram. Svona ákvæði finnst mér ekki nægilega skýrt um það til hvers sé raunverulega ætlast. Þar myndi ég taka undir með hv. þm. Smára McCarthy sem talaði um þetta leiðarstef hérna áðan.

Í nefndarálitinu er einmitt sagt að meiri hlutinn taki undir mikilvægi þess að upplýsingar um starfsemi sjóðsins séu aðgengilegar, það sé mikilvægt að skýrari rammi sé settur þar um en í 8. gr. frumvarpsins, þar sem ráðherra sé veitt heimild til að kveða nánar á um starfsemi sjóðsins í reglugerð. Ef við byrjum aftur á upphafspunktinum, markmiðinu um að efla lagalegt umhverfi þannig að sjóðurinn geti betur uppfyllt verkefni sín og að hlutverk hans sé betur skýrt, finnst manni gefa augaleið að það eigi jafnframt að fjalla um það í lagasetningunni sjálfri, eða að það liggi a.m.k. fyrir strax frá upphafi hvernig þetta verði nánar útfært, ekki sé bara verið að segja, ég ætla ekki segja hálfa söguna, en þetta mætti vera skýrara. Allt sem fram kemur er jákvætt og gott, en það er eins og samtalinu sé ekki lokið.

Þá kem ég aftur að þeim upphafspunkti í frumvarpinu þar sem rakið er hlutverk sjóðsins í 2. gr., að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda með styrkjum eða lánum. Þarna eru aðgerðirnar raktar, að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum og styðja við tiltekin verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni og verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Þetta er stórt og mikið hlutverk enda virðist manni sem hlutverk sjóðsins hafi farið vaxandi á undanförnum árum. Sjóðurinn gegnir lykilhlutverki í aðgerðum stjórnvalda í orkuskiptum, hvað varðar nýsköpun í orkumálum og síðan í samspili orkumála og loftslagsmála. Af því leiðir að það er mikilvægt að styrkja stoðir sjóðsins með sérlögum um hann. En af þessu finnst mér líka leiða að ef hlutverkið á að vera skýrar skilgreint þurfi upplýsingar um starfsemina að vera aðgengilegar og það þurfi að gerast helst núna.

Þá stuttlega að nokkrum athugasemdum. Ég tek aftur fram að mér finnst þetta mál í heild sinni vera mjög af hinu góða og að hér séu tekin jákvæð skref. En helstu athugasemdir varða atriðið sem lýtur að aðgengi almennings að upplýsingum um fjárveitingar sjóðsins. Ég hjó eftir því í umsögn Samtaka iðnaðarins að þau sjónarmið eru einmitt viðruð að mikilvægt sé að auka gagnsæi í stjórnsýslunni almennt séð og það eigi við hér líka. Mikilvægt sé að kveða á um það í lögum um Orkusjóð að hann birti t.d. árlega skýrslu um starfsemi sína og úthlutun styrkja. Í þessari umsögn er vísað til norskrar framkvæmdar, Enova í Noregi, sem eigi ríka samsvörun við starfsemi Orkusjóðs. Ég sé ekki betur en að í frumvarpinu sé vísað í þessa umsögn Samtaka iðnaðarins en ekki talin ástæða í sjálfu sér til að bregðast við henni. Það sé sem sagt niðurstaðan að heppilegra sé að fjalla um innihald og framsetningu þessara upplýsingar í reglugerð en í lögum, ef ég skil það rétt.

Mér finnst ástæða til að staldra aðeins við og tek undir það mat Samtaka iðnaðarins að við eigum að gera auknar kröfur um gagnsæi, sér í lagi þegar við erum að tala um úthlutun á opinberum fjármunum. Við höfum auðvitað séð í þingstörfunum í vetur að hér má alltaf gera betur. Ég nefni í því sambandi, forseti, að þingmaður Viðreisnar, Jón Steindór Valdimarsson, hefur náð því fram að fá upplýsingar um styrkúthlutanir á grundvelli búvörusamninga, sem var sannarlega ekki auðveldur leikur. Ég held að það sé í anda heilbrigðrar skynsemi og ákveðinnar virðingar gagnvart úthlutun á opinberu fjármagni að við höfum þetta eins mikið uppi á borðum og við mögulega getum. Ég á dálítið erfitt með að fella mig við það að aðgengi fólks að þeim upplýsingum sé takmarkað og myndi vilja að við stigum fastar niður fæti hér. Almannahagsmunir við meðferð opinbers fjár eru augljósir og það eru ekki bara prinsippástæður þar að baki heldur það að við höfum í hendi okkar upplýsingar og gögn til þess að veita stjórnvöldum á hverjum tíma ríkt aðhald, og almannahagsmunir að þær upplýsingar liggi fyrir á hverjum tíma en ekki að sækjast þurfi sérstaklega eftir þeim. Þarna eru ríkir almannahagsmunir að baki, eins og ég segi, og kannski eins og ástandið er í ríkisfjármálum í dag efnahagslegir hagsmunir líka.

Önnur athugasemd sem hefur komið fram hér í umræðunni, herra forseti, snýr að skipun stjórnarinnar sem fjallað er um í 3. gr. frumvarpsins. Þarna virðist manni að um sé að ræða pólitíska skipun án sérstakra takmarkana. Ég átta mig ekki almennilega á því að ekkert sé fjallað um með hvaða hætti stjórnarmenn skuli valdir. Þar segir einfaldlega að ráðherra skipi þá. Eru þeir tilnefndir? Hvernig tryggjum við val þessara stjórnarmanna?

Þá vil ég að síðustu víkja að umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands sem mér fannst áhugaverð. Þar kemur fram að í ljósi þessa nýja hlutverks sjóðsins í loftslagsmálum eigi hann líka að geta stutt orkutengd verkefni sem stuðli að eða taki tillit til náttúruverndarstefnu stjórnvalda. Náttúrufræðistofnun leggur þar til að umhverfis- og auðlindaráðuneytið eigi beina aðild að stjórn sjóðsins. Þetta finnst mér, þegar ég stíg inn í þessa umræðu, vera hugmynd sem verðskuldar umræðu, hvort það færi vel á því að umhverfissamtök gætu t.d. tilnefnt stjórnarmann. Hann væri meðal þeirra kandídata sem ráðherra gæti á hverjum tíma valið úr. Það finnst mér aftur koma inn á þetta gagnsæisstef, að það færi vel á því að fyrir lægi með hvaða hætti ráðherra skipar í stjórnina.

Ef ég ramma þetta inn þá myndi ég segja að þetta sé gott mál. Hér eru stigin góð skref. Ég hefði viljað sjá okkur stíga kannski ögn lengra og að undirliggjandi markmið fengju að komast upp á yfirborðið með því að við segðum það berum orðum varðandi hlutverkið, reglugerðarheimildir og um fjármögnunina, þetta sé bara eins mikið uppi á borðum og verið getur.