150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:03]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir spurningarnar. Ég vakti athygli á þessu markmiði í ræðu minni, sem mér finnst vera gott, að þessar breytingar verði gerðar án þess að það leiði til aukins kostnaðar. En mér finnst markmiðið eingöngu vera gott ef hægt er að rökstyðja það, því að loforð eða yfirlýsing eða markmið sem ekkert er á bak við er verra en að leggja af stað yfirleitt, þannig að ég set mikinn fyrirvara við þetta orðalag þarna.

Þegar við eigum við lagasetningu ættum við a.m.k. að gera sömu kröfur og við myndum gera ef við stæðum í dómsal og flyttum mál okkar. Þetta stæði þá eftir sem staðhæfing þar sem ekki hafa verið lögð fram nein gögn um þetta, eins og hv. þingmaður nefnir. Gott markmið eitt og sér gerir óskaplega lítið þegar ekki fylgir neitt raunverulegt með. Þetta er kannski eins og með heimilisbókhaldið, þar er hægt að vera með góðar meiningar og fögur fyrirheit, en það skiptir máli að hafa yfirsýn. Varðandi stjórnina þá er ég stíga inn í þessa umræðu núna og það truflar mig ekki sérstaklega að ráðherra skuli skipa stjórn. Mér hefði þótt fara betur á því að það lægi fyrir með hvaða hætti það verður gert og hvaða sjónarmið séu að baki. Það er þetta gamla góða; eitt er að hafa lögin með sér og síðan er það að hafa málefnaleg sjónarmið. Mér finnst fara vel á því að þau séu í lögunum.