150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þá ekki síst yfirferðina yfir umsagnir sem bárust — tvær þeirra, það bárust auðvitað fleiri. Þar er umsögn sem mér finnst mjög áhugaverð frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem leggur til að sjóðurinn hafi einnig heimild til að styðja við orkutengd verkefni sem eru til að framfylgja náttúruverndarstefnu stjórnvalda. Það finnst mér mjög áhugaverður og mikilvægur punktur. Það kemur auðvitað fram í greinargerð frumvarpsins, og í umræðum um það, að þetta snýst ekki bara um orkuna, þetta snýst um samhengið sem öll orkumál eru í dag sem er náttúruvernd og þá kannski ekki síst loftslagsbreytingar. Orkumál og náttúruverndarmál eru samofin í eðli sínu, alla vega hér á Íslandi og eflaust alls staðar.

Nú veit ég að hv. þingmaður er ekki í atvinnuveganefnd, reyndar er þingflokkur hv. þingmanns ekki með nefndarmann þar heldur áheyrnarfulltrúa. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki sjónarmið sem eðlilegt væri að taka meira tillit til en gert er með nefndaráliti meiri hlutans sem hér er lagt fram. Mér finnst oft eins og það komi fram í umsögnum góðar hugmyndir sem eru þess virði að ræða, fullkomlega málefnalegar, sem falla milli skips og bryggju, eins og sagt er, og fá enga raunverulega umræðu í nefndum eða hér í þingsal. Það sama á við um hina umsögnina sem hv. þingmaður nefndi, frá Samtökum iðnaðarins, um aukið gegnsæi. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni. Ég meina, þetta eru ekki hugmyndir sem virðast róttækar eða þannig að þær breyti eðli málsins.