150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að koma inn á umsögn Samtaka iðnaðarins. Það er klárlega tekið tillit til hennar í seinni umsögn meiri hluta hv. atvinnuveganefndar um þetta mál þar sem stendur:

„Í umsögnum til nefndarinnar voru sett fram sjónarmið um að mikilvægt væri að bætt væri við lögin eða í reglugerð ákvæðum um eftirlit með framvindu verkefna eða skýrslugjöf, m.a. í því skyni að tryggja gagnsæi í stjórnsýslu sem og faglega umfjöllun um verkefni og starfsemi Orkusjóðs. Við meðferð málsins kom fram að upplýsingar um starfsemi sjóðsins hafa verið birtar í ársskýrslu Orkustofnunar, m.a. um framvindu verkefna og þau verkefni sem notið hafa aðstoðar frá sjóðnum. Verklagsreglur sjóðsins sé jafnframt að finna á vef.

Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að upplýsingar um starfsemi sjóðsins séu aðgengilegar. Mikilvægt er að settur sé skýrari rammi þar um en í 8. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um starfsemi sjóðsins í reglugerð. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að betur fari á að kveða ítarlega á um innihald og framsetningu árlegra upplýsinga sjóðsins í reglugerð. Sama gildi um heimild til að fella niður endurgreiðsluskyldu lántaka en í reglugerð þarf að vera skýr rammi um slíkar heimildir.“

Og það er vegna athugasemdar Landsvirkjunar við það sem snýr að endurgreiðsluskyldunni, að út á við sé fullt gagnsæi. Mig langaði í fyrra andsvari að spyrja hv. þingmann hvort við getum litið á það sem verið er að búa til með Orkusjóði sem ákveðið tæki í baráttunni við loftslagsbreytingar. Fyrst og fremst eru þetta seinni orkuskiptin á Íslandi. Í 50 ára sögu sinni tók Orkusjóður mjög mikinn þátt í (Forseti hringir.) jarðhitavæðingu landsins og hitaveituvæðingu. (Forseti hringir.) Er hugmyndin að hann taki seinni orkuskiptin sem við erum nú að fara í?