150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:17]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi kannski byrja á seinni spurningunni og undirstrika það og ramma það sterkar inn að mér líst vel á þetta mál. Ég tel að hér sé hiklaust verið að fara í rétta átt og að það sé mikilsvert og þýðingarmikið að ramma inn með skýrari hætti annars vegar hvert hlutverk sjóðsins hefur verið og hins vegar hvernig það verður. Eins og ég nefndi áðan sýnist mér það nauðsynlegt vegna þess að hlutverk sjóðsins og verkefni hans hafa bæði verið vaxandi og kunna að verða svo áfram.

Ég nefndi í ræðu minni hér áðan, herra forseti, nefndarálit meiri hlutans og umfjöllun um 8. gr. Ég tek undir og tók undir þá gagnrýni sem þar er sett fram. En í ljósi þess að meiri hlutinn hefur þá skoðun að betur hefði farið á því að setja skýrari ramma, hvers vegna er það þá ekki gert? Þetta er sett fram með þeim hætti að mikilvægt sé að skýrari rammi sé settur en 8. gr. frumvarpsins gerir með því að veita heimild og það er augljóst að meiri hlutanum finnst að ekki sé alveg nægilega að gert. Hvers vegna mátti ekki fara í þá vinnu strax að skerpa á þessu? Það er nú kannski leiðarstefið í því sem ég var að reyna að ná fram varðandi þá grein.