150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Mig langar í seinna andsvari rétt að koma inn á fyrra nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar í þessu máli, það sem snýr að stjórn Orkusjóðs. Þar kemur fram:

„Með frumvarpinu er lagt til að í stað þess að ráðherra skipi þriggja manna ráðgjafarnefnd skipi hann þrjá einstaklinga í stjórn sjóðsins. Nokkur umræða varð í nefndinni um skipun stjórnar og hvort setja ætti frekari skilyrði en nú eru gerð við skipun ráðgjafarnefndarinnar út frá hæfisreglum stjórnsýslulaga og þekkingu á málaflokknum, með vísan til þess að um er að ræða ráðstöfun á opinberu fé. Í því samhengi vill meiri hlutinn benda á að með 3. gr. reglugerðar nr. 185/2016, um Orkusjóð, er kveðið á um að ráðgjafarnefndinni sé skylt að leita umsagnar Orkustofnunar eða annarra sérfræðinga eftir því sem við á, áður en tillaga er gerð til ráðherra um styrki eða lánveitingu úr Orkusjóði eða niðurfellingu á endurgreiðsluskyldu lána.“

Mér fannst ég verða að nota þetta andsvar til að koma þessu að í umræðunni vegna þess að það er í raun ekki búin að vera mikil umræða hér um álitið. Það er mikið talað um þessa hluti en það hefur ekki verið vitnað í fyrra nefndarálit meiri hlutans í þessu máli.