150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil bara hafa það skýrt að ég fékk fundarboð fimm mínútum fyrir fund sem ég hafnaði af því að ég hafði ekki verið spurður. Ég veit ekki hvort það hefur áhrif á það hvort fundurinn var haldinn eða ekki. Ég sem áheyrnarfulltrúi hef, samkvæmt þingsköpum og starfsreglum fastanefnda, sömu skyldur lagalega séð til þess að mæta á þá fundi nema nauðsyn banni. Ég myndi því halda að ég hefði eitthvað að segja um það þegar fundarboð er á þingfundartíma af því að ég er einmitt í þessum umræðum, ég er á mælendaskrá hér á eftir og er að fylgjast með umræðunni vegna þess að ég er að taka þátt í henni. Það er því mjög undarlegt að það sé ekki einu sinni bankað í mig og spurt. Núna var t.d. verið að reyna að halda fund í fjárlaganefnd á þingfundartíma og þá gekk hv. formaður Willum Þór Þórsson á milli fólks og spurði það, að sjálfsögðu, en einhverra hluta vegna gerist það ekki í umhverfis- og samgöngunefnd. Um daginn var ég t.d. ekki boðaður á fund (Forseti hringir.) umhverfis- og samgöngunefndar, sem var slitið með stuttum fyrirvara, ég fékk ekki fundarboð fyrr en þremur korterum eftir að fundur hófst.