150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:28]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er svolítið kostuleg tíska að verða til hjá meiri hlutanum, hjá stjórnarliðinu í þinginu þessar vikurnar. Á sama tíma og við erum hvött til að sýna samstöðu, bæði við hér inni og þjóðin öll í þeim verkefnum sem við erum að fást við þessa dagana, koma upp aftur og aftur, á hverjum einasta degi, þær aðstæður í þinginu að stjórnarmeirihlutinn fer fram með offorsi eins og ekki þurfi að taka tillit til neins sem minni hlutinn eða stjórnarandstaðan telur rétt. Maður veltir fyrir sér: Hvernig má það vera? Það er auðvelt að halda fundi í kvöldverðarhléi sem haldið verður hér, og þá er svolítið skrýtið að æða fram með fund í nefnd sem vel má bíða þar til allir eru tilbúnir og enginn þarf að vera á vakt hér í salnum.