150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Í 20. gr. þingskapalaga segir, með leyfi forseta:

„Nefndarfundi skal ekki halda þegar þingfundur stendur yfir. Frá þessu má þó víkja ef nefndarmenn samþykkja og forseti hreyfir ekki andmælum.“

Þannig að það er hægt að víkja frá þessu. Ég vil byrja á að segja: Hvers vegna er þetta? Þetta er náttúrlega þarna af því að þingmenn sem gætu þurft að vera hér og taka þátt í umræðu geta ekki á sama tíma verið á nefndarfundi og tekið þátt í umræðunni þar, nema náttúrlega að fundir fastanefnda séu að jafnaði opnir, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og Píratar hafa ítrekað bent á. Þá væri hægt að fylgjast með eftir á. Að vísu væri ekki hægt að taka þátt í umræðunni, það stendur samt sem áður enn þá út af. En það væri að lágmarki hægt að vita hvað hafi gerst á fundinum. Þetta er í rauninni bara spurning um að skapa sanngjarnt svigrúm. Andi laganna er þessi og áheyrnarfulltrúi hefur alveg jafn mikla þörf á að taka þátt í umræðunni og (Forseti hringir.) að taka þátt í því sem er að gerast á fundinum. (Forseti hringir.) Þetta snýst í rauninni bara um að sanngirni sé gætt (Forseti hringir.) og að anda laganna sé fylgt.