150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú veit ég ekki hvort einn ætti að taka það til sín frekar en annar, en það er alveg til sú taktík í pólitík og annars staðar að þegar ein hliðin vill þvælast fyrir annarri er henni gert ókleift að taka þátt í starfinu. Að vera áheyrnarfulltrúi í nefnd er réttur þingmanns til að hafa aðgang að þeirri nefnd. Það er réttur hans og það er mikilvægt að virða þann rétt, alveg óháð því hvað lagatæknin segir um það, að mínu mati. Samkvæmt fréttum sem við heyrðum hér undir liðnum um fundarstjórn er fundur boðaður með fimm mínútna fyrirvara til að taka út mál stjórnarþingmanns. Maður gerir almennt ekki athugasemd við það, það er fínt að mál séu afgreidd úr nefndum. En ég velti bara fyrir mér hvort þingmenn stjórnarandstöðunnar myndu fá sömu meðferð, (Forseti hringir.) fund með fimm mínútna fyrirvara til að taka út mál. Ég held ekki. (Forseti hringir.) Mér finnst líka fara almennt betur á því að við séum búin að semja um hvernig við ætlum að ljúka þessu þingi, (Forseti hringir.) og afgreiðsla mála úr nefndum kemur þar við sögu, eins og virðulegur forseti veit.