150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þá ræðum við aftur Orkusjóð, sællar minningar. Ég verð að viðurkenna að ég var kominn með hugann við þessa fundarstjórnarsyrpu en hef bara ræðu mína á því að þakka virðulegum forseta fyrir viðleitni hans til að gefa tíma til þess að funda í nefndum utan þingfundar. Það virkar kannski sem eitthvert tæknilegt smáatriði eða einhvers konar formsatriði, en það skiptir máli, sér í lagi þegar áheyrnarfulltrúar eða nefndarmenn eru á mælendaskrá í máli sem þá langar til að tala um.

Hvað Orkusjóðsmálið varðar, sem hér liggur fyrir, verð ég að segja að mér finnst það í öllum meginatriðum ágætt. Ég get ekki fundið því margt til foráttu, en það vekur hins vegar athygli mína, sem mér finnst reyndar svolítið einkenna pólitíkina og það eru eflaust margar og djúpstæðar og rótgrónar ástæður fyrir því, að ég skynja ákveðið metnaðarleysi í þinginu gagnvart því hvenær við getum bætt mál. Það snýr aðallega að því að við fáum mál í þingið, til umræðu í nefndum, og við fáum umsagnir, mismargar. Stundum klikkum við á því að senda umsagnarbeiðnir á aðila sem tengjast málunum, það gerðist mjög nýlega í allsherjar- og menntamálanefnd varðandi alls kostar óskylt efni. Það kemur reglulega fyrir og mér hefur fundist það gerast meira í seinni tíð.

En ef við erum heppin þá koma umsagnir um málin og við fáum einhverjar ábendingar. Stundum eru þessar umsagnir þess eðlis að viðkomandi er á móti málinu eða viðkomandi er rosalega hlynntur málinu eða hvaðeina. En stundum koma einfaldlega ábendingar. Sumar eru þannig að það er ekki alveg ljóst hvort viðkomandi styður málið beinlínis eða ekki eða hvort hann vildi bara leggja sitt af mörkum við að gera íslenska löggjöf aðeins betri en annars hefði orðið. Mér finnst svolítið leiðinlegt að við vannýtum tækifæri til þess að innleiða tillögur úr umsögnum og af fundum nefnda inn í málin sem við fjöllum hér um. Þetta skýrist auðvitað mikið til vegna asans og flýtisins sem einkennir þingstörf á ákveðnum tímabilum þingsins hverju sinni.

Ríkisstjórnarfrumvörp koma inn seint. Stjórnarandstaðan kemur hér og kvartar undan því einhvern tímann í janúar eða febrúar og svo um haustið. Og svo koma málin einhvern tímann; einhver koma eftir 1. mars eða 1. apríl eða hvenær það er sem fresturinn rennur út til að taka inn mál sem leggja á fram, og greidd hafa verið atkvæði um þau, um svokölluð afbrigði. En það er ekki lengur neitt sérstaklega afbrigðilegt fyrir Alþingi að taka fyrir mál sem lögð hafa verið fram að liðnum fresti, það er þvert á móti viðtekin venja og hefur verið lengi. Þetta eru allt saman einkenni þess að fyrirkomulagið á Alþingi virðist ekki vera í stakk búið til að taka vel utan um þingstörfin sjálf og innleiða ágætar hugmyndir sem berast.

Í þessu tilfelli bárust tvær tillögur sem mig langar til að gera að umfjöllunarefni, sem hv. 7. þm. Reykv. n. nefndi hér einnig í ræðu sinni áðan. En þetta eru góð dæmi um nokkuð sem væri mjög einfalt að bæta, eða í það minnsta að takast á við í nefndarálitinu, þannig að skýringar væru fyrir því hvers vegna ekki er brugðist við því. Ég átta mig alveg á því að stundum finnist meiri hluta og nefndum þetta vera til aðeins of mikils ætlast vegna þess að þau treysta sér hreinlega ekki til að fara út í mjög djúpar umræður um hvaða hugmynd sem er, því að það verður að viðurkennast að það eru ekkert allar hugmyndir góðar sem hingað berast, eins og hv. þingmenn sjálfsagt kannast við.

En hér eru tvær góðar hugmyndir, tvær ljómandi fínar hugmyndir. Önnur þeirra er lagatæknilegs eðlis, sem skiptir máli. Lagatækni skiptir máli. Formið skiptir máli. Hin varðar meira það hvernig við sjáum fyrir okkur hlutverk þessa sjóðs. Ég sé ekki að fjallað sé um þá hugmynd í nefndarálitum. Í umsögn sinni leggja Samtök iðnaðarins til meira gegnsæi almennt í stjórnsýslunni. Hvað varðar ákall um gegnsæi og þess háttar myndi ég svara því með því að segja að við erum ekki mjög góð í að bregðast við með því hugarfari að við viljum vera best, að Ísland vilji vera best í einhverju eins og gegnsæi. En það er ekkert mál, virðulegi forseti. Það þarf beinlínis bara viljann til þess.

Ég átta mig á því að í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans við málið er brugðist við þessum athugasemdum og bent á að til séu reglur, ég man ekki hvort það er hjá sjóðnum sjálfum eða hvað, en alla vega eru skýringar á því hvernig þessar lánveitingar fara fram og á hvaða forsendum og allt það, og sömuleiðis koma fram í ársskýrslu sjóðsins þau verkefni sem virkjuð hafa verið eða lánað fyrir, og er það ágætt. En Samtök iðnaðarins hljóta samt sem áður að kalla eftir þessu af einhverri ástæðu, væntanlega þeirri að það væri betra að hafa þetta í lögunum og hafa reglugerð til að útfæra framsetningu og innihald, að krafan um þetta gegnsæi sé í lögum. Það væri betra þótt ekki væri nema vegna þess að þegar fólk fer að lesa lögin — og viti menn, sumir lesa lögin — sjái það þessa kröfu þar inni og geti þá áttað sig á því að það sé til í reglugerð sem kannski væri gagnlegt að glugga í. Fyrir utan það að þá birtist tengillinn við hana í tilheyrandi lagabálki.

Þarna er tækifæri til að gera eitthvað betra sem var ákveðið að nýta ekki. Kannski er það vegna þess, og það er viðhorf sem ég hef tekið eftir, að það er ákveðin tregða, sem ég hef skynjað, við að breyta hlutum nema það sé rosalega skýr og allstór ástæða til að breyta. Mér hefur fundist lítil viðleitni til þess að breyta hlutunum til hins betra nema mikið liggi við, nema það séu ásláttarvillur eða tilvísun í rangar málsgreinar, eða eitthvað því um líkt. Þá er það auðvitað lagað, enda engin smáatriði í sjálfu sér þegar kemur að lagabálki. Það skiptir miklu máli að vísað sé í réttar málsgreinar og aðrar greinar og hvaðeina.

Hitt atriðið er hins vegar kannski pólitískara og ég skil betur að ekki hafi verið komið til móts við það. Ég skil hins vegar ekki hvers vegna ekki, vegna þess að ekki er fjallað það, eftir því sem ég fæ best séð, ég hef alla vega ekki rekist á þau gögn enn þá. En það er tillaga Náttúrufræðistofnunar um að Orkusjóður styðji einnig orkutengd verkefni í samræmi við náttúruverndarstefnu stjórnvalda. Eins og við vitum er þessum sjóð ætlað í frumvarpinu að styðja við verkefni samkvæmt orkustefnu stjórnvalda. Sem er fínt, það er ágætismarkmið og ekkert að því, það bara flott að bæta lagaumhverfið í kringum þá ágætu stofnun. En orkumálin, náttúruverndarmálin, eru ekki aðskilin. Þau eru þvert á móti algjörlega samtvinnuð. Það er varla hægt að ræða annað án þess að ræða hitt. Þá er í raun og veru ekki bara spurning um hvort við séum að ræða loftslagsbreytingar eða náttúruvernd í aðeins klassískari skilningi, nefnilega því að halda í óbyggða náttúru eða eitthvað því um líkt. Hvort tveggja kemur orkumálum við. Ástæðan fyrir því að það hefur verið svo ofboðslega umdeilt að reisa hér vatnsfallsvirkjanir, sem þó eru ein besta leiðin sem við þekkjum til að búa til rafmagn, er vegna áhrifa þeirra, jafnvel þeirra, á náttúruna.

Á síðari tímum myndum við kannski horfa meira á, eða alla vega myndi sá sem hér stendur frekar vilja horfa meira á jákvæð áhrif slíkra virkjana á getu okkar til að takast á við loftslagsbreytingar. En óneitanlega hafa virkjanirnar neikvæð áhrif, í það minnsta stundum, á fallega náttúru sem við myndum vilja halda í. Og þá koma inn tilfinningar og skoðanir á því hvað er fallegt og hvað ekki, með allri þeirri umræðu sem því fylgir og við verðum bara að búa við og finna út úr, kannski með einhvers konar rammaáætlun.

Það er sömuleiðis þannig að þegar við erum að tala um orkumál — segjum sem svo að fram komi ný leið til þess að búa til orku, hér sé eitthvert snjallt uppfinningafólk sem finnur upp nýjar leiðir til að búa til orku. Sjóðurinn snúi hins vegar aðallega að orkumálum en þessi nýja aðferð sé aðallega til þess að vernda náttúruna vegna orkuframleiðslu, ný leið til að koma í veg fyrir náttúruspjöll af völdum orkuframleiðslu. Þá væri heppilegt ef sjóðurinn tæki líka tillit til þess. Ég veit ekki hvort slíkt sé á leiðinni, líklega ekki. Það ætti samt sem áður að segja okkur eitthvað um hversu samtengd þessi svið eru; náttúruvernd annars vegar og orkuframleiðsla hins vegar. Maður vonar barnslega að von sé á einhverjum leiðum sem þar sem þetta fer vel saman, alla vega vonandi ekki þannig að við þurfum sífellt að fórna einhverjum náttúruverndarsjónarmiðum til að búa til orku, því að við þurfum orku. Við þurfum sífellt meira af orku, meira af rafmagni, ekki síst vegna þess að við verðum að fara í orkuskipti. Það er í raun ekkert valkvæmt, að mínu mati. Loftslagsbreytingar eru yfirþyrmandi, þær eru hafnar, þær eru af mannavöldum og við verðum að fara í mjög róttækar og reyndar fordæmalausar breytingar á mannlegu samfélagi til þess að eiga séns á því að halda okkur við markmiðin, sem við vitum þó að eru ansi slæm, nefnilega 2°C heitari jörð að meðaltali við lok aldarinnar miðað við upphaf iðnbyltingarinnar. Það þýðir að við megum ekki skilja þann málaflokk eftir, bara þannig að við gerum rétt svo nóg til að halda í einhverja alþjóðasáttmála eða eitthvað því um líkt, til að uppfylla einhver skilyrði. Við verðum að gera eins vel og við mögulega getum. Ég minni á að við erum nýlega búin að ganga í gegnum næstum stöðnun á sumum sviðum efnahagslífsins vegna Covid-19 faraldursins. Það dugði ekki til að setja neitt sérstaklega stórt strik í reikninginn þegar kemur að útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Að hugsa sér, að jafnvel þessi stöðnun í efnahagslífinu dugi ekki til. Maður hefði nú haldið og vonað að úr þessu yrði einhver leiðsögn um hvernig við gætum haldið áfram baráttunni gegn loftslagsbreytingum með því að draga úr neyslu, draga úr umsvifum. En skilaboðin eru þessi: Við þurfum nýja tækni og við þurfum mikið af henni og við þurfum hana fljótt, og þá ekki síst á sviði orkuframleiðslu og orkunýtingar og iðnaðar sömuleiðis.

Reyndar las ég nýlega frétt eftir að hafa hlýtt á ágæta ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar í umræðu hér þar sem hann fjallaði um ákveðna uppfinningu, sem ég þekki reyndar einungis úr fréttum. Sú uppfinning gerir það víst kleift að framleiða ál án þess að losa út koltvísýring, en losar út súrefni í staðinn. Það er mjög spennandi. Þar kvartar sá uppfinningamaður og þau sem að þessu standa, það kemur í það minnsta fram í fjölmiðlum, yfir áhugaleysi yfirvalda hér gagnvart því að styrkja verkefnið. Erlend stórfyrirtæki hafa áhuga á því að koma að þessu, sem er mjög jákvætt. En það er líka slæmt að upplifunin sé sú að lagaumhverfi okkar og stofnanirnar sem við höfum hér, sem eru beinlínis hugsaðar til að styðja við nýsköpun og nýjar leiðir í orkuframleiðslu og orkunýtingu, hafi ekki áhuga á tækifærum eins og þessu.

Nú segi ég þetta með þeim fyrirvara að ég hef þetta einungis úr fréttum og hlakka til að skoða það mál betur. Ég vona að þarna sé einhver misskilningur á ferð. En þetta er ekki eini staðurinn þar sem við rekumst á slíkt viðhorf. Það kemur líka mjög skýrt fram í umsögn Valorku ehf. við það mál, að yfirvöld gleymi stundum til hvers þau séu að þessu. Það er auðvitað til þess að stuðla að einhverri sköpun, nýsköpun eða framleiðslu á orku, sem er þá vonandi sjálfbær og náttúruvæn, það ætti að vera skilyrði, myndi ég segja, eins og framast er unnt, í það minnsta.

Reyndar hefði ég líka viljað fara út í skipun stjórnarinnar, að ráðherra skipi stjórn Orkusjóðs samkvæmt þessu frumvarpi eftir eigin höfði, eða svo gott sem, að vísu með fyrirvörum um einhver skilyrði sem þarna eru á bak við. Ég verð að segja fyrir mig að það er ákveðin lenska á Alþingi að treysta sjálfkrafa ráðherrum til að taka ákvarðanir vegna þess að þeir eru ráðherrar. Ég treysti því bara ekki.

Virðulegur forseti. Ég bara veit það mætavel að hagsmunaaðilar hafa áhrif á ráðherra. Þeir hafa áhrif á alls konar ferli. Það var aldrei öðruvísi og verður aldrei öðruvísi og þess vegna er mikilvægt að löggjöfin taki mið af þeim raunveruleika (Forseti hringir.) og hafi viðunandi aðhald og mótvægisákvæði til að koma í veg fyrir slíkt. (Forseti hringir.) En ég hef augljóslega ekki tíma til að ræða það nánar, virðulegur forseti, og lýk því ræðu minni.