150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er guðvelkomið þegar kemur að þeim sem hér stendur í það minnsta, vegna þess að ég trúi því staðfastlega að ákveðinn skortur sé á heimspekilegum vangaveltum í ræðum hér á Alþingi. Nú hef ég svo sem ekki svarið við þessu, alla vega ekki hið endanlega, en ég get lagt fram skilning minn á því sem mikilvægt er að hafa í huga þegar fram líða stundir hvað varðar annars vegar náttúruvernd, sem ég kann ekki að lýsa öðruvísi en klassískri náttúruvernd, og hins vegar loftslagsbreytingar. Það eru ekki endilega sjónarmið sem fara saman. Það hefur lengi verið svolítið þannig í hópum sem byrja að berjast fyrir mikilvægum málstað, sem í upphafi er hafnað af iðnaði og stórum viðskiptaaðilum, að til verður ákveðin menning þar sem forgangsröðun eða það að meta hluti út frá peningum verður einhvers konar tabú eða synd. Það tel ég vera mistök. Við verðum að geta borið saman mismunandi markmið sem við viljum ná fram í náttúruvernd. Það er ákveðin tilhneiging til að segja: Við verðum að bjarga öllu og redda öllu. En í takmörkuðum heimi, þar sem það er ekki hægt, þurfum við að forgangsraða. Við gætum jafnvel þurft að forgangsraða út frá hlutum eins og kostnaði. Þetta eru svipaðar spurningar og við lendum í þegar kemur að heilbrigðismálum. Ef lyf kostar 300 milljónir á ári fyrir einn einstakling þá segir hjartað að auðvitað eigi maður bara að borga það. En þessar 300 milljónir geta kannski nýst til sömu jákvæðu áhrifa fyrir 100 manns, og það er auðvitað það sem verður alltaf erfitt í þessum málum þar sem peningarnir og verðmætin sem við höfum til að leysa vandamálin eru af skornum skammti en vandamálið sjálft er yfirþyrmandi og sorglegt.

Ég kann ekki lausnina á þessu, virðulegi forseti, en ég veit að við verðum að beita hugarfari þar sem við getum forgangsraðað eftir því hversu mikilvægt er að leysa vandann. Ég vil meina að loftslagsbreytingar séu yfirþyrmandi mikilvægasta náttúruverndarmálið í dag. Af þeim sökum getum við þurft, að mínu mati, að taka minna tillit til sjónarmiða sem við hefðum frekar tekið tillit til fyrir kannski örfáum tugum ára, vegna þess að við getum (Forseti hringir.) nýtt náttúruna okkar til að berjast gegn loftslagsbreytingum, þó ekki án þess að fórna einhverjum náttúruverndarsjónarmiðum við það.