150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir framsögu hans. Ég náði ekki að fá alveg fram sjónarmið hans um Orkusjóð og langaði að inna hann eftir hvort hann teldi þennan sjóð vera einhverja nauðsyn, hvort hann gæti ekki bara verið vistaður einhvers staðar annars staðar og hvort yfir sjóðnum þyrfti að vera stjórn sem ráðherra skipar. Ráðherra virðist alveg ráða því hverjir verða þar. Það er svolítið furðulegt. Þegar maður skoðar 8. gr. kemur fram að ráðherra setur allar reglur og ræður framlögum. Svo er það ítrekað: Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins. Þetta virðist því eiginlega vera orkusjóður sem ráðherra stjórnar alveg frá A til Ö. Finnst hv. þingmanni það í lagi? Ef ekki, hvernig myndi hann vilja taka öðruvísi á því? Þessi sjóður á að sjá um alls konar málefni, en það virðist vera mjög illa útfært hvað hann á að gera. Það virðist eiginlega bara vera undir því komið hvað ráðherra ákveður að sjóðurinn eigi að sýsla með. Ég veit ekki hvort maður á að kalla þetta skúffufjársjóð ráðherra.