150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki getað kynnt mér málið nógu vel til að svara þeirri spurningu, alla vega ekki vel. Við að kynna mér málið hef ég hins vegar velt fyrir mér tengslum þess við nýsköpun. Orkusjóður er ekki nýr í sjálfu sér. Hann er bara hluti af lögum um Orkustofnun og er kannski 50 ára gamall, eitthvað svoleiðis. Þetta er alla vega gömul stofnun og hún verður til og þróast í umhverfi sem horfir kannski ekki jafnmikið á nýsköpun og við viljum gera í dag. Ég velti því fyrir mér. Ég þori ekki að fullyrða neitt um það vegna þess að ég er hreinlega ekki viss.

Ég verð að segja að ég hélt að hv. þingmaður væri að spyrja hvort þetta mætti ekki vera annars staðar en í Reykjavík. Svar mitt við því er: Jú, klárlega. Þetta má mín vegna vera annars staðar en í Reykjavík eins og mjög margar aðrar stofnanir. Ég veit að hv. þingmaður var ekki að spyrja að því. Ég varð bara að koma því að vegna þess að ég hélt fyrst að hv. þingmaður væri að spyrja að því.