150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég óska eftir því að iðnaðarráðherra komi hér í þessa umræðu um Orkusjóð. Þetta er mál hæstv. ráðherra, að leggja til að Orkusjóður sé tekinn undan Orkustofnun og að stjórn sé skipuð á þennan hátt, þrír aðilar sem ráðherrann ræður algjörlega yfir, hefur reglugerðarheimild um hvernig þetta skuli gert og hefur á endanum neitunarvald eða vald til að samþykkja hvernig útdeila skuli almannafé.

Hefur ráðherra, sem leggur þetta til, heyrt af því að atvinnuveganefnd, sem er að vinna málið, hefur nýlega samþykkt að gera hlutina miklu faglegar varðandi annan sjóð, Matvælasjóð? Að þar skuli vera fagráð sem færi yfir umsóknir og gefi umsögn til stjórnar skipaðri af ráðherra um hvort málefnalegt væri á þessum forsendum að útdeila fé. (Forseti hringir.) Málefni sjóðsins eru gríðarlega víðtæk; hagkvæm nýting orkuauðlinda, að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, að auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum, orkuöryggi, samkeppnishæfni á sviði orkumála (Forseti hringir.) á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og loftslagsstefnu. (Forseti hringir.) Allt þetta á þessi þriggja manna stjórn að hafa faglegar forsendur til að meta ef hún spyr bara Orkustofnun. (Forseti hringir.) Nei, það þarf að gera þetta faglegar og taka út freistnivandinn. (Forseti hringir.) (Forseti hringir.)

Ég óska eftir því að ráðherra mæti hérna og svari þessu.

(Forseti (WÞÞ): Forseti minnir hv. þingmann á að virða tímamörk.)