150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:44]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir áhugaverða ræðu. Eins og kom fram í umræðunni áðan er ég kannski ekki alveg á sama stað varðandi fagráðið og annað slíkt. Ég ætlaði svo sem ekki að ræða það við hv. þingmann. Ég er hins vegar alveg sammála því að það hefði mátt ganga lengra gagnvart stjórninni, að gera faglegar kröfur til hennar. Svona til gamans fletti ég því upp hverjir sitja í ráðgjafarnefndinni og komst að því að formaður er hv. þm. Haraldur Benediktsson. Það hefði reyndar verið gaman að sjá hann taka þátt í umræðunni í dag því að hann er væntanlega fróðasti maðurinn hér í húsinu um starfsemi sjóðsins, en það er annað mál. Auk hans eru í nefndinni Franz Viðar Árnason, sem er fyrrverandi forstjóri Norðurorku, og Halla Hrund Logadóttir sem ég ætla að leyfa mér að segja að sé einn af okkar fremri sérfræðingum í orkumálum í dag og er reyndar aðjúnkt við Harvard-háskóla, rosalega flott kona sem hefur verið að vinna stórmerkilegt starf í tengslum loftslagsmálin, norðurslóðir og orkumálin í heild. Það má því segja að núverandi ráðherra hafi alla vega skipað stjórnina nokkuð faglega. En það er allt önnur umræða og ég skil vel hræðsluna við að ekki séu alltaf frábærir ráðherrar og þar af leiðandi alltaf þessi freistnivandi. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þetta. Er það í raun og veru óttinn, að alls konar ráðherrar komi, og þar af leiðandi væri æskilegt að krafa um faglega þekkingu eða faglegan bakgrunn væri sett inn í löggjöfina?