150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst bara að almennt ætti að vera krafa um að faglega sé skipað í stjórn og nefndir á vegum hins opinbera, sér í lagi þegar kemur að því að útdeila opinberu fé. Við höfum náttúrlega mýmörg dæmi um að flokksgæðingar, þingmenn eða einhverjir sem eru vinveittir ráðherra séu skipaðir í stöður til að greiða fyrir málum eða til að útdeila einhvers konar bitlingum. Ég er ekki að segja að það eigi við í þessu tilfelli, alls ekki. En mér finnst bara almennt séð að það eigi að gera ákveðnar kröfur. Ég man þegar við vorum enn þá með kjararáð, blessuð sé minning þess, og ég vildi koma inn þeirri einföldu klausu að viðkomandi aðilar sem skipaðir væru í kjararáð hefðu menntun og þekkingu við hæfi. Það var samt bara mjög mikil tregða við að setja það inn. Þetta var fólk sem átti að meta þróun á almennum vinnumarkaði og ákveða laun þingmanna út frá því og því tókst nú heldur betur að hleypa öllu í bál og brand með launahækkun þingmanna. Daginn eftir að ég var fyrst kjörin á þing fékk ég þessa frábæru gjöf frá kjararáði eða hitt þó heldur. Hálf þjóðin var brjáluð út í mig.

Við reyndum að fá aðgang að gögnum um hvernig hefði verið staðið faglega að þessari ákvarðanatöku, þessu mati, hvað lægi til grundvallar. Við gátum ekki fengið svör. Mér finnst bara svo mikilvægt að í allri stjórnsýslu, í öllum nefndum, í allri útdeilingu á gæðum sem hið opinbera stendur fyrir, hver svo sem þau eru, sé skýrt hvaða viðmið eru til staðar, á hvaða grunni er skipað, á hvaða grunni er úthlutað, á hvaða grunni ákvörðun er tekin. Að það eigi að liggja fyrir, og það eigi að vera hægt að lesa úr lögunum og það sé ekki bara háð hentisemi og geðþótta ráðherra hverju sinni. Mér finnst einmitt að ekki ætti að skipta máli hver er ráðherra í því hvernig reglur eru settar. (Forseti hringir.) Það á bara að vera staðall að við gerum faglegar kröfur.